131. löggjafarþing — 52. fundur,  8. des. 2004.

Neyslustaðall.

129. mál
[10:26]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til þess að fagna yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra sem hér kemur fram, að viðskiptaráðherra hafi á ríkisstjórnarfundi verið falin forkönnun á framkvæmd slíkrar neysluviðmiðunar. Ég tel að það geti orðið mikil framför að koma á slíkum samræmdum neyslustaðli sem ætti að styðja við velferðarkerfið. Við getum komið á neyslustaðli sem hægt er að byggja ýmsar bætur og ákvarðanir á þar sem leggja þarf til ákveðinn framfærslugrunn.

Hið opinbera tekur nú mið af a.m.k. fimm mismunandi framfærslugrunnum við ákvörðun bóta, lána, fjárhagsaðstoðar og styrkveitingar svo sem við mat á greiðslugetu vegna fjárhagserfiðleika. Við getum nefnt tryggingakerfið, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, Lánasjóð íslenskra námsmanna, Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, Íbúðalánasjóð og lánastofnanir. Ég held að það sé mikið framfaraspor ef við getum komið á samræmdum neyslustaðli eins og nágrannaþjóðir okkar hafa víða gert. Það hefur ítrekað verið kallað eftir slíkum neyslustaðli, m.a. frá Ráðgjafarstofu heimilanna, og því fagna ég yfirlýsingu hæstv. ráðherra og tel að hugur fylgi máli, vegna þess að ráðherrann upplýsir jafnframt að verja skuli ákveðnum fjármunum, 2 millj. kr., til þess að gera úttektina, og ég gat ekki skilið ráðherrann öðruvísi en að fyrir lægi ákvörðun um að farið yrði í slíkan samræmdan neyslustaðal. Þetta er fagnaðarefni og ég þakka fyrir svör hæstv. ráðherra.