131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[18:48]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki skrýtið þó að hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni gangi illa að átta sig á að hér er jafnaðarmannaflokkur sem vill nota skattkerfið til að jafna aðstöðu fólks í samfélaginu. Það er ekkert skrýtið þó að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins skilji það ekki. En við mundum auðvitað fara nákvæmlega yfir allt þetta dæmi, sem ég gerði áðan, því við viljum skoða hlutina í heild. Við höfum vakið athygli á að með því að hækka blint þessi gjöld og ýmsa aðra skatta, án þess að taka tillit til þess t.d. hver efnahagur íbúanna er, og lækka síðan tekjuskattinn á móti fyrir hluta af fengnum (GÞÞ: Hver er stefnan?) þá er verið að auka ójöfnuð. Ég var að segja, hv. þingmaður, en ég geri ekki ráð fyrir að þið áttið ykkur á því að það sé til eitthvað sem er hægt að nálgast í jöfnuð og í gegnum skattkerfið, vegna þess að þið horfið bara á skattkerfið sem tekjuöflunarleið (GÞÞ: ... aukatekjur ...) og ekkert annað. Við teljum hins vegar, hv. þingmaður, að hægt sé að nota skattkerfið til að jafna kjörin í landinu. Aukatekjur ríkissjóðs eru að sjálfsögðu hluti af því, hv. þingmaður, og við viljum þess vegna skoða það í heild sinni. Ég ætla ekki að útiloka að hækka megi einstaka aukatekjur ríkissjóðs, þó ekki væri, því eins og kom fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal, er búið að breyta hlutunum þannig að taka verður sjálfstæða ákvörðun um hækkanirnar, þær gerast ekki sjálfvirkt, og hæstv. fjármálaráðherra getur ekki einn og sér ákveðið slíkt. Það á að fara hér í gegn, vegna þess að það er ætlast til að við skoðum þetta í heild sinni. Hv. þingmaður getur auðveldlega skoðað þinggögn sem liggja frammi frá Samfylkingunni um hvernig við teljum að nýta eigi það svigrúm sem nú er til skattalækkana. En við viljum ekki gera það á sama hátt og ríkisstjórnin gerir núna vegna þess að, svo ég endurtaki, við lítum á skattkerfið sem hluta af því að jafna kjörin í landinu.