131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[18:52]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að byrja á að játa að ég kann ekki alveg á þá borgarstjórnartaktík sem hér er notuð, þegar menn eru talandi út og suður og setjandi upp í aðra einhver orð sem þeir hafa aldrei sagt, en þetta er einhver kúnst sem sumir hafa tileinkað sér og sjálfsagt að bera virðingu fyrir henni.

En stefna ríkisstjórnarinnar er alveg skýr í þessu eins og hv. þingmaður segir, stefna ríkisstjórnarinnar er að hækka gjöld og skatta umfram það sem þeir kalla lækkun. Ég er hins vegar margbúinn að segja hv. þingmanni að stefnumál okkar um þetta liggja fyrir, og ég er líka búinn að segja að við viljum jafna kjörin gegnum skattkerfið. Við höfum talað um það, hv. þingmaður að við eigum að nota svigrúmið m.a. til að lækka matarskattinn og ég hélt að hv. þingmaður væri sammála því.

Aukatekjur ríkissjóðs, hv. þingmaður, er ég búinn að fjalla um nokkrum sinnum og ég vil ekki fara að endurtaka það frekar, vegna þess að þetta er auðvitað hlutur sem þarf að skoða í samhengi við annað. Og ég notaði ræðu mína áðan í það, sem hv. þingmaður hefði betur hlustað örlítið betur á, að vekja athygli á hverju heildarniðurstaðan er að skila okkur. Hún skilar okkur því að ríkisstjórnin er væntanlega — ekki að setja Íslandsmet, ætli það sé ekki heimsmet í skattahækkunum þrátt fyrir að hv. þingmenn komi hér hver um annan þveran og reyni að telja sjálfum sér trú um að verið sé að lækka skatta. En aukatekjur ríkissjóðs eru hluti af þeirri mynd, hv. þingmaður, alveg sama hvort þér líður vel eða illa með það, þá eru aukatekjur ríkissjóðs hluti af þeirri miklu hækkun sem hefur átt sér stað og mun eiga sér stað á næsta ári. Það er ekkert undan því hlaupist, hv. þingmaður, þó svo hver og einn þingmaður hjá Sjálfstæðisflokknum vilji eingöngu ræða um þetta í bútum, eitt og eitt í einu af því að þá verður hver tala lægri. En þegar allt er saman lagt, eins og ég fór nákvæmlega yfir í ræðu minni, þá er niðurstaðan algerlega kristaltær. Hún er sú að hv. þingmaður sem hefur gefið sig út fyrir að vera mikill skattalækkunarmaður er skattahækkunarmaður „par excellence“.