131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

330. mál
[20:38]

Frsm. menntmn. (Gunnar Birgisson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Val Árnason frá menntamálaráðuneyti, Steingrím Ara Arason frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, Jarþrúði Ásmundsdóttur og Erlu Ósk Ásgeirsdóttur frá stúdentaráði Háskóla Íslands, Heiði Reynisdóttur frá Sambandi íslenskra námsmanna erlendis, Jónínu Brynjólfsdóttur og Huldu Katrínu Stefánsdóttur frá Iðnnemasambandi Íslands, Eyrúnu Jónsdóttur frá Bandalagi íslenskra sérskólanema og Halldóru Friðjónsdóttur frá Bandalagi háskólamanna.

Umsagnir bárust nefndinni frá Bandalagi íslenska námsmanna, Iðnnemasambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands, Félagi stúdenta við Háskólann á Akureyri, Sambandi íslenskra námsmanna erlendis, skólafélagi Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Visku – félagi stúdenta við Háskólann í Reykjavík og Bandalagi háskólamanna.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á reglum um endurgreiðslur og málsmeðferð og lagt til að heimild til að veita lán á markaðskjörum verði felld niður.

Nefndin vekur athygli á því að í lok umsagnar fjármálaráðuneytis um frumvarpið er ranglega farið með tölur í lokamálsgreininni. Þar segir að niðurstaða umrædds kostnaðarmats, verði frumvarpið óbreytt að lögum, sé að ríkið þurfi að öðru óbreyttu að hækka framlag til sjóðsins um 235–340 millj. kr. á ári. Hið rétta er 265–340 millj. kr. á ári eins og kemur reyndar fram framar í umsögninni. Þetta var leiðrétt við 1. umr. en er áréttað hér.

Í b-lið 1. gr. frumvarpsins kemur fram að málskotsnefnd getur frestað réttaráhrifum úrskurðar síns, að kröfu stjórnar LÍN, fyrir hönd sjóðsins telji nefndin ástæðu til þess. Í athugasemdum segir að við mat á því hvort heimildinni verði beitt beri málskotsnefndinni að taka mið af því hvort úrskurðurinn geti haft fordæmisgildi, hann hafi í för með sér veruleg fjárútlát fyrir sjóðinn eða að lögfræðilegur ágreiningur sé um niðurstöðuna.

Þegar litið er til þessara tilvika í heild sinni telur nefndin heimildina vera helst til of rúma. Mestu hlýtur að skipta hvort niðurstaða málskotsnefndarinnar í tilteknu máli hafi eða geti haft í för með sér veruleg fjárútlát fyrir sjóðinn og raskað þannig fjárhagslegum forsendum hans. Nefndin telur því rétt að málskotsnefndin leggi mat á þann þátt eingöngu við beitingu heimildarinnar en ekki hvort úrskurðurinn kunni að hafa fordæmisgildi eða að lögfræðilegur ágreiningur sé um niðurstöðuna. Leggur nefndin til að umrætt skilyrði verði tekið upp í lagatextann sjálfan. Auk þess eru lagðar til smávægilegar orðalagsbreytingar í 1. efnismálsl. b-liðarins til að árétta að þar er átt við úrskurð nefndarinnar.

Með leyfi forseta eru breytingartillögurnar við 1. gr. eftirfarandi:

a. 1. efnismálsl. b-liðar orðist svo: Að kröfu stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir hönd sjóðsins getur nefndin frestað réttaráhrifum úrskurðar síns telji hún að hann muni hafa í för með sér veruleg fjárhagsleg áhrif á sjóðinn.

b. 3. efnismálsl. b-liðar orðist svo: Skal frestun á réttaráhrifum úrskurðar að auki vera bundin því skilyrði að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna beri málið undir dómstóla innan 30 daga frá frestun og óski þá eftir að það hljóti flýtimeðferð.

Þá telur nefndin þörf á að orða 6. gr. frv. skýrar en gert er en greinin fjallar um breytingu á 8. gr. laganna. Ætlunin með 6. gr. frumvarpsins er að setja fram reglur sambærilegar þeirri sem nú er í 18. gr. laganna þess efnis að námsmenn ljúki við endurgreiðslu svokallaðra R-lána áður en endurgreiðsla á öðrum lánaflokkum á að hefjast. Er því lagt til að 6. gr. frumvarpsins verði breytt til samræmis við það. Með leyfi forseta eru breytingartillögurnar frá nefndinni:

Ný málsgrein bætist við er orðist svo: Ef lánþegi skuldar námslán sem var úthlutað á árunum 1992–2004, svokallað R-lán, og jafnframt námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum skal hann fyrst endurgreiða að fullu R-lánið. Greiðslur af eldri námsskuldum frestast þá þar til R-lánið er að fullu greitt.

Með hliðsjón af framanrituðu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali og ég var að lesa upp. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, Mörður Árnason og Kolbrún Halldórsdóttir skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara.

Steinunn K. Pétursdóttir sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hún samþykk áliti þessu með fyrirvara.

Undir álitið skrifa Gunnar Birgisson, formaður og framsögumaður, Dagný Jónsdóttir, Hjálmar Árnason, Kjartan Ólafsson, Björgvin G. Sigurðsson með fyrirvara, Kolbrún Halldórsdóttir með fyrirvara, Sigurður Kári Kristjánsson og Mörður Árnason með fyrirvara.

Við umfjöllun nefndarinnar um málið urðu litlar breytingar á frumvarpinu. Ég vil rétt renna yfir þær.

Breytingartillaga við 1. gr. um að stjórnin geti krafist þess að málskotsnefnd fresti réttaráhrifum úrskurðar vegna verulegra fjárhagslegra hagsmuna fyrir sjóðinn. Stjórn sjóðsins sem ber ábyrgð á fjármálum hans verður að hafa slíka heimild undir höndum ef málskotsnefnd úrskurðar á þann veg sem getur haft veruleg áhrif, kannski kostnað upp á einhver hundruð milljóna eða þaðan af meira. Stjórnin er samt ábyrg og verður að hlíta þessu þannig að það er ekki annað hægt en að skjóta þessu máli fyrir dómstóla ef slíkt er. Nefndin sem samdi frumvarpið lagði það til líka ef lögfræðilegur ágreiningur yrði en það var fellt út. Eingöngu var haldið í þetta atriði sem var kannski aðalatriði málsins ef slíkt kemur upp, að stjórnin hafi þennan möguleika.

Í 2. gr. laganna er endurgreiðslan síðan lækkuð úr 4,75% í 3,75%.

3. gr. þýðir veruleg útgjöld fyrir sjóðinn, upp á 600–700 millj., en á móti er sett inn í 3. gr. að þegar verið er að reikna út tekjuviðmið fyrir lánþega er tekinn fjármagnstekjuskattur ásamt tekjuskatti og reiknað út frá þeim stofni. Stofninn breikkar og nettóáhrif ríkisins verða eins og áður sagði 260–340 millj. sem þarf aukalega að setja inn í sjóðinn frá ríkinu. Á fjárlögum fyrir 2005 eru áætlaðar 300 millj. í þetta.

Síðan eru tæknileg atriði í 4. gr. til að herða á málum varðandi það að menn sæki um endurútreikning varðandi viðbótargreiðslu. Gefnir eru 60 dagar til þess.

Í 5. gr. er lagt til að markaðskjaralánin detti út og hins vegar er í 6. gr. eins og ég fór yfir áðan viðbótartillaga. Í ákvæði til bráðabirgða er mönnum sem hafa tekið lán frá 1992 gefnir möguleikar á því að skuldbreyta miðað við þessi lög þannig að endurgreiðslan þeirra lækki úr 4,75% í 3,75%.

Með þessu lagafrumvarpi er stigið mikið framfaraspor fyrir lánþega hjá sjóðnum.

Annað sem hefur gerst og stjórnin náði var að gera samkomulag við Landsbankann upp á að fella niður nauðsyn þess að ábyrgðarmenn skrifi á lánið. Menn geta keypt sér ábyrgð upp á 15 ár hjá Landsbankanum og munu örugglega fleiri lánastofnanir koma þar á eftir. Það er gjörbylting í þeim málum þannig að mörg góð teikn eru á lofti og mörg framfaraspor sem er verið að stíga núna í lánasjóðnum. Ég legg til að þetta frumvarp verði samþykkt með þeim breytingum sem ég kynnti.