131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

330. mál
[21:04]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og skilja mátti af andsvari hv. þingmanns, sem stóð yfir í tvær mínútur og nægði ekki hv. þingmanni til að útskýra það sem hér um ræðir, er hér um nokkuð flókið lagatæknilegt mál á ferðinni. Þess vegna óskaði ég eftir því við menntamálanefnd að við fengjum stjórnsýslusérfræðing til að ræða málið ofan í kjölinn.

Hér erum við að fjalla um álitaefni og þótt hv. þingmaður telji að í greinargerðinni séu nefnd fordæmi, þ.e. í almannatryggingalögum og upplýsingalögum, þá dregur BHM að mínu mati fram afar sannfærandi rök fyrir því að fordæmin eigi ekki við í þessu tilfelli þar sem réttur er færður í hendur lægra settu stjórnvaldi gagnvart hinu hærra setta, þ.e. að stjórn lánasjóðsins eigi að hafa aukinn rétt umfram málskotsnefndina, sem á að mati BHM að vera fullkomlega sjálfstæð og óháð í störfum sínum. Það er fyrst og fremst þetta sem BHM gagnrýnir.

Ég tel eðlilegt að við fáum tíma til að ræða og fara virkilega ofan í saumana á málinu, hvort þetta sé fordæmalaust, hvaða fordæmi séu og hvort þau eigi við í þessu tilfelli. Til þess þurfum við sérfræðinga og tíma til að skoða málið.