131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[22:17]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Mörður Árnason gerði þjónustugjöld að umræðuefni í ræðu sinni þegar hann gerði grein fyrir nefndaráliti minni hlutans. Ef ég skildi hv. þingmann rétt, þegar hann skilgreindi hugtakið þjónustugjöld, þá lýsti hann því þannig að við töku þjónustugjalda mætti það stjórnvald sem svo gerir ekki rukka viðkomandi um hærri fjárhæð en sem nemur nákvæmlega þeim kostnaði sem hlýst af því að veita umrædda þjónustu.

Páll Hreinsson, prófessor í lögum við Háskóla Íslands, gaf út plagg um þjónustugjöld, rit um þjónustugjöld árið 1996, þar sem hann fjallar um inntak þjónustugjaldsins. Í því riti segir Páll, með leyfi forseta:

„Þegar um er að ræða einfalda lagaheimild til töku þjónustugjalds má gjaldið ekki vera hærra en sá kostnaður sem almennt hlýst af því að veita umrædda þjónustu.“

Páll skýrir hugtakið enn betur í riti sínu. Hann segir, með leyfi forseta:

„Ákvörðun á fjárhæð þjónustugjalda verður yfirleitt að byggjast á traustum útreikningi á þeim kostnaði sem almennt hlýst af því að veita umrædda þjónustu. Ef ekki er hægt að sérgreina nákvæmlega ákveðna kostnaðarliði er heimilt að byggja þá á skynsamlegri áætlun.“

Síðan segir Páll, með leyfi forseta:

„Sá sem greiðir þjónustugjöld getur yfirleitt ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita honum þjónustu sé reiknaður nákvæmlega út og honum gert að greiða gjald sem honum nemur. Verða gjaldendur oftast að sæta því að greiða þjónustugjald sem nemur þeirri fjárhæð sem almennt kostar að veita umrædda þjónustu. Stjórnvöld geta því oftast reiknað út hvað það kostar að meðaltali að veita vissa þjónustu og tekið gjald samkvæmt því.“

Í ljósi þessara skrifa prófessorsins við lagadeild Háskóla Íslands langar mig til þess að spyrja hv. þingmann hvort hann sé ósammála þessari skilgreiningu á þjónustugjaldshugtakinu.