131. löggjafarþing — 53. fundur,  9. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[01:18]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við erum nú komin að lokum 1. umr. um frumvarp til laga um afnám laga um Tækniháskóla Íslands. Ég hefði nú gjarnan viljað sjá hæstv. menntamálaráðherra í salnum. Mér var tjáð áðan að hún mundin vera í húsi. Ég spyr hæstv. forseta hvort það sé rétt.

(Forseti (HBl): Menntamálaráðherra er í húsinu.)

Ástæðan er sú að ég var búin með fyrri ræðu mína við1. umr. en sá ástæðu til að biðja um síðari ræðu þegar hæstv. menntamálaráðherra hafði flutt síðari ræðu sína í málinu því við þá ræðu vöknuðu ýmsar spurningar sem mér finnst rétt að við fáum svör við hér við þessa umræðu.

Eitt af því sem ég hef haft verulegar áhyggjur af í þessu máli er að hér skuli ríkisstjórnin vera að leggja til að ákveðnar námsgreinar skuli teknar í gíslingu einkaháskóla þannig að þær verði ekki lengur í boði fyrir stúdenta nema þeirra sem hafa ráð á að borga há skólagjöld. Þar á ég við tæknifræðina. Ég ítreka það að ég vona bara, verði af þessu — sem ég reyndar vona að verði ekki — en verði af þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar þá bara treysti ég því að meinatæknin og geislafræðin komist undan því einkahlutafélagi sem á að taka hér við og treysti því að unnið verði af alefli að því að koma þeim greinum fyrir í tengslum við læknadeild Háskóla Íslands svoleiðis að þær lokist ekki inni í einkaháskóla sem innheimtir há skólagjöld.

En af því að hæstv. menntamálaráðherra er komin í salinn langar mig til að fara yfir nokkra punkta sem komu fram í síðari ræðu hennar við 1. umr. málsins, þ.e. fyrri hluta. Það varðar í fyrsta lagi frumgreinadeildina. Hæstv. menntamálaráðherra var spurð að því í umræðunum hvernig færi með skólagjöld frumgreinanemenda sem ákvæðu að halda áfram í námi og inn á háskólastig. Hæstv. ráðherra svaraði því til að þessir nemar þyrftu ekki að greiða skólagjöld meðan þeir væru að klára frumgreinadeildina en um leið og nám þeirra flyttist upp á háskólastig eða þeir færu á háskólastig í sinni námsframvindu þá kæmi til skólagjaldagreiðslna.

Ég harma þetta svar, hæstv. forseti, og ég vil fá nánari skilgreiningu eða skýringu frá hæstv. menntamálaráðherra við þessu svari vegna þess að ég fæ ekki betur séð en þetta stríði gegn 1. gr. þessa frumvarps þar sem sagt er, með leyfi forseta:

„Nemendur sem við gildistöku laga þessara eru í námi við Tækniháskóla Íslands eiga rétt á að ljúka því námi samkvæmt því námsskipulagi sem í gildi er við skólann miðað við gildandi reglur um námsframvindu.“

Nú eru þessir nemendur í námi og hafa búið sér til námsskipulag sem byggir á því að þeir haldi áfram að lokinni frumgreinadeildinni upp á háskólastigið og ljúki þar háskólagráðu enda er það í samræmi við gildandi reglur um námsframvindu í þeim skóla sem þeir eru nú innritaðir í, Tækniháskóla Íslands. Ég sé því ekki annað en að við verðum að fá rökstuðning hæstv. ráðherra hér við 1. umr. málsins áður en það fer inn í nefndina, fyrir því hvernig hún sjái þessa grein samræmast því svari sem hún gaf nemendum frumgreinadeildarinnar hér í fyrradag eða gær eða hvenær það var sem fyrri hluti umræðunnar fór fram.

Síðan vil ég spyrja hæstv. ráðherra um eitt sem ég enn tel orka tvímælis. Það var svo sem ekki orðað neitt skýrt í fyrri hluta umræðunnar en nú tel ég að það standi út af borðinu og að svara þurfi að leita hjá hæstv. ráðherra við eftirfarandi spurningu:

Hvernig fer, verði þetta frumvarp að lögum, með skólagjöld núverandi nema, þ.e. þeirra sem ekki koma til með að greiða skólagjöld í einkahlutafélaginu, í hinum nýja skóla? Má skilja það sem svo að einkahlutafélagið fái þar með eingöngu greitt fyrir hvern þessara nemenda sem nú hafa þegar hafið námið upphæð sem nemur framlagi ríkissjóðs samkvæmt væntanlegum samningi við einkahlutafélagið eða ætlar einkahlutafélagið að rukka ríkissjóð um upphæð sem nemur þeim skólagjöldum sem, ef þetta frumvarp verður að lögum, í fyllingu tímans ættu að koma inn fyrir viðkomandi nema? Er það svo að ríkissjóður ætli að greiða skólagjöldin en ekki nemarnir sjálfir eða falla hreinlega niður skólagjöld sem eðli málsins samkvæmt mundu annars fylgja þessum nemendum?

Ég tel að þessari spurningu þurfi hæstv. ráðherra að svara áður en málið fer til nefndarinnar.

Síðan vil ég að lokum, hæstv. forseti, segja þetta: Hæstv. menntamálaráðherra hefur lagt það til grundvallar í þessu máli að auka þurfi veg tæknimenntunar og verkfræðimenntunar í landinu. Það hefur komið fram í þessari umræðu að til séu fleiri en ein leið í því sambandi. Ég tel hæstv. ráðherra ekki vera búinn að svara því hvort ekki hafi verið hægt að efla námið í tæknifræði og verkfræði án þess að einkavæða stóran hluta þess. Ég vil því að hæstv. ráðherra svari okkur því hvort ekki hafi verið aðrar leiðir færar, þ.e. að forða þessu námi frá því að fara í einkavæðingarferlið og skólagjaldaumhverfið sem einkaskólarnir búa við.

Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni við fyrri hluta umræðunnar að mikilvægt væri að auka samkeppni í verkfræðináminu og hún skammaði okkur stjórnarandstöðuþingmenn fyrir að við værum að gera þessa sameiningu tortryggilega. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég er ekki sammála hæstv. ráðherra um að það sé svo mikilvægt að auka þessa samkeppni innbyrðis á milli skóla hér í þessu litla samfélagi okkar. Ég tel verkfræðinám og tækninám í mikilli samkeppni við erlenda háskóla og ég tel ekki rétt að við eyðum kröftum okkar innan lands í það að etja skólum hverjum gegn öðrum eins og mér fannst koma fram í máli hæstv. ráðherra þegar hún talaði um að það sé lykilatriði að auka samkeppni í verkfræðináminu og að á þann hátt komi námið til með að eflast. Ég get ekki sagt, hæstv. forseti, að ég sé sammála þessu sjónarmiði hæstv. ráðherra, þvert á móti. Ég tel að ríkissjóður eða ríkið, hið opinbera, ríkisstjórn þessa lands og menntamálayfirvöld beri þá ábyrgð gagnvart skólum landsins að þeir fái frjóan jarðveg til að starfa í og olnbogarými, svigrúm og sjálfstæði og þá sé skólasamfélagið fullfært um að búa til öfluga skóla og menntastofnanir, það þurfi ekki að auka samkeppni í náminu sem verði þá forsenda framfara í viðkomandi grein.

Ég hef þá kenningu, hæstv. forseti, að það hafi verið ásetningur Sjálfstæðisflokksins lengi að koma tæknináminu fyrir í þessu einkarekna háskólakerfi og ég hef jafnvel á tilfinningunni að það hafi verið nánast sáluhjálparatriði sjálfstæðismanna og þess vegna fagni þeir nú eins og þeir hafa gert hér við þessa umræðu að takmarkinu skuli nú loksins náð. Þetta byggi ég auðvitað á því að það eru einungis tvö ár síðan við samþykktum á Alþingi, eftir því sem virtist þá í umræðunni við mikinn fögnuð þingmanna, lög um Tækniháskóla Íslands. Hann hefur ekki fengið tækifæri til þess að blómstra. Hann hefur ekki fengið byr í seglin sem ég vil í raun kenna stefnu ríkisstjórnarinnar um sem ætíð stefndi að því að þetta nám yrði einkavætt.

Ég hef sem sagt miklar athugasemdir við þetta mál og ég mótmæli því sjónarmiði sem kemur fram í orðum hæstv. menntamálaráðherra þegar hún talar um samkeppnina í náminu og að verið sé að bítast um nemendur eins og hún orðaði það í síðari ræðu sinni við fyrri hluta umræðunnar. Hún talar um hinn gróskumikla markað og hún talar um samkeppnisumhverfi. Hæstv. forseti. Þetta er ekki í mínum huga það sem ég tel gróskumikinn skapandi jarðveg fyrir skólastarf. Þar erum við hæstv. menntamálaráðherra í grundvallaratriðum ósammála.

Ég ber þá von í brjósti að þetta mál fari ekki lengra. Ég tel að þetta ráðslag sem ríkisstjórnin er hér að leggja til verði ekki til góðs. Ég tel ýmsar aðrar leiðir betur færar sem ég gerði grein fyrir í fyrri ræðu minni. En ég treysti því engu að síður að hv. menntamálanefnd fái ráðrúm, svigrúm og tíma til þess að fara djúpt og vel og á vandaðan hátt yfir þetta mál til að tryggja að okkur yfirsjáist ekki neinir hlutir og við hendum ekki barninu út með baðvatninu.