131. löggjafarþing — 53. fundur,  9. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[01:41]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. menntamálaráðherra segir að sveigjanleiki og svigrúm sé ekki eingöngu fólgið í því að leggja skólagjöld á nemendur í háskólunum. En það er greinilegt að í huga hæstv. ráðherra er hluti af sveigjanleikanum og svigrúminu að stjórnendur skólanna geti lagt skólagjöld á nemendurna. Við erum því enn á öndverðum meiði því hæstv. ráðherra fjallar um fjárhagslegt svigrúm sem einkaskólarnir geta búið sér til með því að leggja á skólagjöld. Það geta opinberu háskólarnir ekki gert. Að því leytinu til hafa þeir því ekki sama sveigjanleika og einkaskólarnir.

Ég er ósammála hæstv. ráðherra um að það bjóði ekki upp á misrétti til náms ef allt nám á háskólastigi er farið að lúta skólagjöldum. Það býður í mínum huga upp á misrétti og ójafnvægi og ég skil ekki hvað hæstv. ráðherra hefur fyrir sér í því þegar hún segir að það geri það ekki, því að allt skólaumhverfið, stúdentar, kennarar og þeir sem hafa starfað í skólaumhverfinu hafa margir í ræðu og riti lýst því yfir hvernig skólagjöld og endalausar rukkanir á gjöldum í náminu setji fólki skorður hvað varðar námsval. Það eru því mörg rök sem benda til þess að ég hafi rétt fyrir mér í þessum efnum og þó að ég sé til í leiðangur með hæstv. ráðherra í að auka sveigjanleika og svigrúm opinberra háskóla er ég ekki til í að sá leiðangur þurfi að innibera skólagjöld við alla opinbera háskóla.