131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Fsp. 2.

[15:17]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. forsætisráðherra og vil spyrja hæstv. ráðherra um stefnu ríkisstjórnarinnar hvað varðar framboð til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna fyrir árin 2009 og 2010 og um stöðu málsins í ríkisstjórninni og hjá stjórnarflokkunum um þessar mundir. Málið hefur verið alllengi í undirbúningi eins og menn vita og fyrrverandi utanríkisráðherra og núverandi forsætisráðherra hefur unnið að þessu og látið utanríkisþjónustuna undirbúa þetta með ýmsum hætti. Þannig hefur verið stofnað til stjórnmálasambands við ýmis þróunarlönd og utanríkisþjónustan efld á ýmsum póstum til að takast á við þetta væntanlega verkefni ef af verður.

Tölur hafa komið fram og kannski ekki allar sem áreiðanlegastar um kostnað sem þessu kunni að vera samfara og er eðlilegt að mönnum bregði í brún ef hann mælist í milljörðum króna. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum sl. tvö ár, bæði í fjárlaganefnd og í utanríkismálanefnd, óskað eftir því að kostnaðaráætlun yrði reidd fram og einhvers konar framkvæmdaáætlun um framboðið, eigi í það að ráðast.

Ég vil taka það skýrt fram að við höfum ekki hafnað því að Ísland taki þetta sæti enda sé kostnaðurinn innan viðráðanlegra marka og ástæða til að ætla að sá leiðangur hafi eitthvað upp á sig, sérstaklega hvað það snertir að Ísland standi í öryggisráðinu fyrir þannig óháðri og sjálfstæðri utanríkismálastefnu að fullur sómi sé að.

Nú hefur það hins vegar gerst að varaformaður fjárlaganefndar og einn af talsmönnum Sjálfstæðisflokksins hefur sagt opinberlega að hann telji að falla eigi frá þessu framboði og skorar á formann sinn, hæstv. utanríkisráðherra, að fylgja því eftir. Það má ráða af ummælum bæði formanns utanríkismálanefndar og aðstoðarmanns utanríkisráðherra að ýmsir í Sjálfstæðisflokknum séu ekki fráhverfir því að hætt verði við framboðið.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hver er eiginlega staða málsins í ríkisstjórninni? Er stefnan óbreytt að stefna á framboð til þessa sætis eða hvað er að frétta af þessu máli?