131. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2005.

Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2003.

[16:01]

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Enn stöndum við hér og ræðum af mikilli ánægju skýrslu umboðsmanns Alþingis og er það vel því sú skýrsla gagnast þingmönnum afar vel í allri þekkingarleit á stjórnsýslunni og er okkur mjög nauðsynleg.

Það er mikil ánægja með þetta embætti þar sem það lýtur að því að réttaröryggi borgaranna sé í fyrsta sæti. Við erum því að ræða um gríðarlega mikilvæga stofnun sem mikilvægt er að góð sátt sé um. Þannig hefur það líka verið og mun eflaust verða svo áfram.

Eins og hv. formaður allsherjarnefndar, Bjarni Benediktsson, skýrði frá, höfum við notið góðs af því að fá umboðsmann Alþingis í heimsókn til nefndarinnar og einnig höfum við heimsótt hann. Nefndin hefur verið afar vel upplýst um það sem þar er verið að vinna og er það vel.

Það eru einstaka þættir í skýrslunni sem alltaf er gaman að ræða og mig langar sérstaklega að gera að örlitlu umtalsefni þau frumkvæðismál sem umboðsmaður Alþingis hefur tekið að sér. Margt af því er þegar farið að skila sér. Á bls. 15 í skýrslunni er t.d. rætt um heilbrigðisþjónustu fanga en þær athugasemdir virðast ætla að skila sér strax út í kerfið, sem er afar gott. Jafnframt þar sem rætt er um félagsþjónustu sveitarfélaga sem er kannski eitt af eilífðarverkefnum og eilífðaratvinnu sem þarf alltaf að vera að skoða, þ.e. hvernig þau lög virka gagnvart borgurunum og rétti þeirra, en þar hefur umboðsmaður Alþingis einnig sýnt frumkvæði með því að skoða sérstaklega þá vinnu sem fer fram hjá úrskurðarnefnd, t.d. félagsþjónustu í kærumálum.

Ánægjulegt verkefni sem hefur verið unnið að er könnun á öllum þeim nefndum sem eru að störfum, úrskurðarnefndum og öðrum en þær hafa allar þurft að senda skilagrein til umboðsmanns um hversu langan tíma taki að afgreiða mál og hvernig það sé allt saman framkvæmt. Það verður afar fróðlegt að fá niðurstöðuna úr þeirri vinnu. Hjá embættinu fer því fram gríðarlega fín og fagleg vinna sem gagnast öllum til framtíðar.

Hér hefur líka verið bent á að samt sem áður virðist ákveðið tregðulögmál vera í gangi í stjórnsýslunni og það er enn til staðar, því miður. Það er eitthvað sem við þurfum að reyna að breyta. Þetta má sjá t.d. í aukningu á töfum við afgreiðslu mála frá stjórnvöldum og gott væri að fá kortlagt hvaða kvartanir þetta eru. Ég gat ekki séð það alveg í skýrslunni hvers konar mál eru í töf, en það er kannski aukaatriði.

Það er líka vert að skoða kvartanirnar og að hvaða ráðuneytum og stofnunum þær snúa. Eflaust eigum við eftir að sjá aukningu í ákveðnum málaflokkum þar miðað við bæði breytingar á lögum og einnig ýmislegt nýtt sem er að gerast í löggjöf. Við sjáum að dóms- og kirkjumálaráðuneytið skorar hæst hvað varðar málafjölda kvartana. Það er kannski ekkert óeðlilegt, enda er mikið þar undir.

Ég er hins vegar alveg hissa á að t.d. heilbrigðisráðuneytið skuli koma þar strax á eftir, að þar skuli ekki vera fleiri kvartanir. Það ber kannski vott um að í heilbrigðiskerfinu er þekking á því við hvern eigi að ræða til að mál komist í réttan farveg. Það er kannski meira á hreinu í heilbrigðismálum en í öllum öðrum málaflokkum og hinn almenni borgari þekkir e.t.v. fleiri leiðir í því kerfi en í öðrum kerfum og því ber minna á kvörtunum þar. Þetta er sérstakt miðað við umfang heilbrigðiskerfisins sem er stærsta kerfið hér á landi.

Síðan kemur menntamálaráðuneytið sem er líka afar stórt kerfi. Þannig að það er ekkert óeðlilegt við það.

Það er líka mjög áhugavert að skoða skiptingu skráðra mála sem gefur okkur kannski smá vísbendingar um hvar helst muni koma fram kvartanir í framtíðinni. Þar eru t.d. málsmeðferðir og starfshættir stjórnsýslunnar enn langstærst.

Þá komum við að þeirri tregðu sem var rætt um hér og enn er til staðar í kerfinu og mikilvægi þess að námskeiðin í stjórnsýslunni, bæði fyrir þá sem eru að byrja að vinna þar og einnig þá sem þar eru séu stöðug. Ég veit að þegar er hafið samstarf við forsætisráðuneytið milli umboðsmanns og þess ráðuneytis og ég held dómsmálaráðuneytis, ég vona ég fari rétt með það, þar sjáum við kannski mjög góða leið til úrbóta. En þetta er greinilega eitt af því sem stöðugt þarf að vinna í og á þessu sviði þarf að vera stöðug endurmenntun fyrir þá sem sinna þessum mikilvægu málum.

Maður veltir líka fyrir sér hvort fólk viti nægilega vel um allar kæruleiðir. Við sjáum það á öllum þeim erindum sem umboðsmaður fær en ættu ekki að vera á hans borði. Kannski vantar leiðbeiningar til hins almenna borgara á öðrum stigum. Þetta er eitthvað sem er mjög gaman að skoða.

Þegar við skoðum skráðu málin sem eru á bls. 33 í skýrslunni, þá sjáum við eins og ég nefndi áðan að þar ber hæst starfshætti stjórnsýslunnar og einnig opinbera starfsmenn. Fangelsismálin hafa verið og verða alltaf ofarlega á baugi, því þar er réttarstaðan oft viðkvæm. Það er í sjálfu sér ánægjulegt því þar sjáum við t.d. líka að úr þeim málum sem hafa komið til umboðsmanns hefur þegar verið greitt. Við sjáum í rauninni skilvirknina strax í þeim málum sem þangað koma. Þar er málaflokkur sem heitir börn og er frekar stór en ætti kannski ekki að vera það. Það væri mjög verðugt verkefni að skoða hvað það felur í sér.

Ég vil þakka umboðsmanni fyrir afar greinargóða skýrslu. Hún er alltaf spennandi og skemmtileg aflestrar. Hún er okkur ákveðið lærdómsrit og ákveðin leiðsögn til að sinna réttaröryggi borgaranna.