131. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2005.

Kosningar til Alþingis.

26. mál
[16:42]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér á nýjan leik fyrir tillögu til þingsályktunar um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis. Flutningsmenn ásamt þeim sem hér stendur eru aðrir hv. þingmenn Frjálslynda flokksins, Magnús Þór Hafsteinsson, Sigurjón Þórðarson og Gunnar Örlygsson.

Þessi tillaga hefur nú verið flutt hér nokkrum sinnum áður og get ég þess vegna e.t.v. farið hraðar yfir sögu en ella væri. En þó er nú málum þannig háttað að akkúrat í þessari viku hófust störf í nefnd við að endurskoða stjórnarskrána. Þessi þingsályktunartillaga gengur reyndar út á það að skipa nefnd og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að skipa fulltrúa allra þingflokka, er sæti eiga á Alþingi, í nefnd sem endurskoði kjördæmaskipan og tilhögun kosninga til Alþingis. Nefndin hafi að markmiði að jafna atkvæðisrétt landsmanna þar sem landið verði allt eitt kjördæmi. Þá fái nefndin það hlutverk að leggja til fyrirkomulag þar sem ráðherrar víki þingsæti fyrir varamönnum sínum og hvaða skyldum ráðherrar gegna þá varðandi störf þingsins.“

Þetta er efni tillögunnar, hæstv. forseti. Eins og ég gat um í upphafi máls míns hagar svo til að það sem hér er ályktað um, að skipa nefnd til að ræða m.a. stjórnarskrána og ýmis atriði í henni, hefur þegar verið gert, þótt af öðru tilefni sé. Hvatinn að því að hæstv. forsætisráðherra ákvað að láta skipa slíka nefnd eru þær deilur sem urðu á síðasta ári. En hvað um það? Á fót hefur verið komið nefnd til að endurskoða stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.

Þrátt fyrir skipunarbréf nefndarinnar, um það að okkur bæri einkum að skoða 1. gr., 2. gr. og 5. gr. stjórnarskrárinnar þá hefur því verið lýst yfir og verið rætt á fyrsta fundi þeirrar nefndar að að sjálfsögðu færu menn vítt og breitt yfir efni hennar og færu yfir öll atriði sem þeir vildu taka til skoðunar. Sú leiðbeining sem fram kom í bréfi hæstv. forsætisráðherra vísar ekki endilega til þessa en þó er þar ekki lokað á að ræða önnur atriði í stjórnarskrá landsins, enda væri það sérkennilegt þar sem 73. gr. stjórnarskrárinnar markar öllum þegnum Íslands málfrelsi og skoðanarétt. Það var því að vonum að menn breyttu eftir því og að nefndin færi í málið með opnum huga enda full ástæða til þess.

Á Alþingi hafa í gegnum árin verið fluttar fjölmargar tillögur um ýmis atriði varðandi breytingar á stjórnarskránni, ekki bara tillagan sem við hv. þingmenn Frjálslynda flokksins flytjum nú. Hún er til komin vegna þess og er eiginlega afleiðing þess að hér var tekið upp nýtt kjördæmafyrirkomulag sem við þekkjum og fyrst var kosið eftir árið 2003. Það byggir á þremur stórum landsbyggðarkjördæmum, reyndar mjög stórum. Þar af leiðandi er mikil fyrirhöfn að ferðast þar um og reyna að halda þokkalegu sambandi við fólkið í stærri kjördæmum og þarf talsvert fyrir því að hafa.

Við í Frjálslynda flokknum áttum á sínum tíma ekki aðild að þeirri niðurstöðu varðandi kjördæmaskiptinguna sem við búum nú við. Við höfum reyndar talið að úr því sem komið er væri ekki nema eitt að gera, þ.e. að skoða það í alvöru hvort ekki væri kominn tími á að landið yrði eitt kjördæmi. Við í Frjálslynda flokknum höfum komist að þeirri niðurstöðu að kjördæmaskipan hér á landi hafi svo sem enga sérstaka vernd veitt landsbyggðinni eða hinum minni kjördæmum. Það sjáum við best ef við lítum vítt og breitt um landið. Víða fækkar í byggðum, jafnt í dreifðum byggðum landsins sem kaupstöðum og landsbyggðin á frekar undir högg að sækja. Þar af leiðandi er ekki hægt að halda því fram að hin sérstaka kjördæmaskipan sem verið hefur og byggst hefur á mismunandi atkvæðavægi hafi varið byggðir landsins. Ég held að enginn þingmaður sem lítur aftur í tímann geti haldið því fram að þannig hafi það verið.

Er t.d. hægt að halda því fram að okkur, sem vorum þingmenn Vestfjarðakjördæmis, hafi tekist sérstaklega vel upp við að verja hagsmuni Vestfjarða? Ég lít ekki svo á. Það hefur fækkað í byggðum Vestfjarða og sá atvinnuréttur sem var okkur mest virði, fiskveiðirétturinn, hefur að þó nokkru leyti verið frá okkur tekinn og við höfum lent í hörkubaráttu við að verja þann frumrétt okkar að fá að halda uppi byggðum og atvinnu á því landsvæði.

Þannig er það vaxið, virðulegi forseti, og þess vegna ákváðum við að koma með þessa tillögu á þingi. Við fyrri framlagningu á þessu máli höfum við einnig viljað benda á að við upptöku á ákvæði um að Ísland verði eitt kjördæmi þyrfti jafnframt að taka upp öðruvísi fyrirkomulag á alþingiskosningum, tvenns konar lista, flokkslista og landslista. Menn gætu þá annars vegar valið flokkslista og hins vegar valið einstaka menn af landslista. Þannig held ég að við mundum í raun auka lýðræði fólksins í landinu og gefa því aukið vægi og valinu á því fólki sem kemur til starfa á háttvirtu Alþingi.

Það er líka afar sérstakt að í nýju kosningalögunum er ákvæði um að til að fá úthlutað jöfnunarsæti skuli flokkur ná a.m.k. 5% atkvæða á landsvísu þótt jafnvel megi sýna fram á að hægt sé að ná kjörnum þingmanni með innan við 2% atkvæða. Þótt jafnframt sé sagt í þingsköpum að tveir fulltrúar flokks á Alþingi skipi þingflokk og séu fullgildur þingflokkur þá settu menn samt inn ákvæði um 5%. Ég tel að nokkurn veginn sama prósentutala eigi að gilda sem lágmark eins og þarf til að mynda þingflokk á Alþingi. Mér finnst ekki eðlilegt að hægt sé að ná inn tveimur mönnum miðað við fylgi en fá ekki sama rétt til uppbótarþingmanna ef þeir ná ekki 5%. En það er fræðilegur möguleiki, sýnist mér, að það gæti komið upp. Ætli besta nýting á atkvæðamagni sé ekki núna hjá Framsóknarflokknum, sem aðeins hefur 2.707 atkvæði á bak við þingmann? Þingmenn Frjálslynda flokksins hafa hins vegar 3.340 atkvæði, minnir mig, á bak við hvern þingmann. Þannig er nú það, virðulegur forseti, enda munaði ekki nema einhverjum 12–13 atkvæðum í síðustu alþingiskosningum á að Frjálslyndi flokkurinn fengi fimmta þingmanninn.

Þá kem ég að efni sem ég vil einnig víkja að í þessari ræðu, sem er meðferð kjörseðla. Ég tel mikilvægt að skoðuð verði meðferð utankjörfundargagna. Ég tel það algjörlega aftan úr grárri forneskju, hæstv. forseti, að þeir sem greiða atkvæði utan kjörfundar séu sjálfir á ferðalagi um landið með kjörseðilinn í vasanum eða þurfi að reyna að koma honum á flutningabíl, olíubíl eða flugvél til að koma honum til skila. Ég tel að slíkt fyrirkomulag heyri fortíðinni til og furða mig á því að það hafi ekki verið endurskoðað þegar menn skoðuðu kosningalögin síðast. Það hlýtur að eiga að vera þannig, þegar fólk greiðir atkvæði hjá sýslumanni eða umboðsmanni sýslumanns, að það sé skylda sýslumannsins eða umboðsmannsins að koma atkvæðunum til skila. Með nútímatækni þarf reyndar ekki ferðalag til að koma því til skila heldur er hægt að telja þar sem kosið er og senda niðurstöðuna í viðeigandi kjördeild eða kjördæmi ef því er að skipta. Ef landið yrði að einu kjördæmi þá mundi það ekki skipta svo miklu máli. Þá gætu menn skilað utankjörfundaratkvæðum hvar sem er og þau yrðu talin þar sem þeim væri skilað.

Það er talað um það í kosningalögum að kjósandinn skuli ævinlega njóta vafans, þ.e. ef kjörseðill er illa merktur, ef úr því megi lesa hver viljinn hafi verið skuli hann njóta vafans. Það á ekki við í utankjörfundaratkvæðagreiðslu því að þar getur jafnvel það að stimpil embættismanns vantar eða uppáskrift embættismannsins orðið til að seðillinn verði ógildur.

Það voru ýmis tilbrigði í alþingiskosningum síðast, sem við gerðum að umræðuefni strax eftir alþingiskosningar, við talningu atkvæða. Meðferð atkvæða eftir kjördæmum var mjög mismunandi og fjöldamargt sem þar væri ástæða til að skoða. En þar sem skipuð hefur verið sérstök nefnd til að vinna með kjördæmamálið og því hefur verið lýst yfir að þar mundu menn tína til það sem þeir telja að hafi misfarist, ég tala nú ekki um þegar hægt er að halda því fram að þar hafi orðið lapsus í framkvæmd, þá væri það auðvitað skoðað.

Þar af leiðandi stöndum við frammi fyrir því núna, aldrei þessu vant, eftir að hafa mælt fyrir þessu máli í þrjú, fjögur skipti að nú er til staðar nefnd við að endurskoða kjördæmaskipunina. Fulltrúi okkar í nefndinni mun að sjálfsögðu koma þessum sjónarmiðum og tillögum sem hér eru til umræðu á framfæri. Að sjálfsögðu munu fulltrúar annarra flokka einnig koma með þær hugmyndir og ábendingar inn í nefndarstarfið sem þeir hafa áhuga á að teknar séu til skoðunar. Ég ætla að leyfa mér að vona í fyllstu einlægni að okkur takist vel til í nefndarstarfinu við að endurskoða stjórnarskrána og að um þau verk sem okkur tekst að ljúka takist mikil sátt, að menn nái samkomulagi um þau. Það er auðvitað ekki sjálfgefið hvaða niðurstöðu menn ná en ég met það svo að menn vilji leggja ýmislegt á sig til þess að ná lendingu í málinu.

Deilumálið frá síðasta sumri mun auðvitað koma upp, um vald forsetans og það hvort forsetinn eigi að geta skotið málum til þjóðarinnar. Ég tel að svo eigi að vera og til viðbótar við það eigi að koma skýr ákvæði inn í stjórnarskrána sem lúta að því að ákveðinn fjöldi kjósenda, t.d. 20%, geti óskað eftir því að mál gangi til þjóðaratkvæðagreiðslu hafi þeir skrifað upp á skjal til að láta í ljós þá ósk sína. Jafnframt mætti skoða það atriði að ákveðinn fjöldi þingmanna geti einnig krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um ákveðin mál. Ég tel að endurskoðun stjórnarskrárinnar eigi almennt að vera í þá átt að auka lýðræði fólks og réttarstöðu en ekki öfugt.

Ég held líka að skoða þurfi ýmislegt í tengslum framkvæmdarvalds, dómsvalds og löggjafarvalds. En tíma mínum er nú að ljúka. Ég ætla ekki að fara náið yfir það hér en ég hef fjölmargar hugmyndir um hvað þarf að skoða varðandi endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ég vonast til þess að við sem þar munum vinna förum öll í það með opnum huga að gera þjóð okkar sem mest gagn við að endurskoða stjórnarskrána og að þar séu lagðar upp skýrar reglur sem taka mið af því að stjórnvöld í landinu eru fyrir fólkið og fólkið í landinu sem á réttinn sem við mörkum í stjórnarskránni. Megintilgangur okkar yrði því að gera stjórnarskrána nútímalega með aukið lýðræði og réttindi fólks í landinu í huga og þannig að hún veiti stjórnvöldum aðhald.