131. löggjafarþing — 60. fundur,  26. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

171. mál
[13:45]

Herdís Á. Sæmundardóttir (F):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa fyrirspurn og sömuleiðis svar ráðherra við henni. Ég tel að hér sé hreyft við grundvallarspurningu sem lýtur í raun að því hvernig eigi að fara með og hvernig eigi að skilgreina leikskólann í menntakerfinu, þ.e. hvort og þá að hve miklu leyti það á að vera skólaskylda á leikskólastiginu. Ég held að við stefnumótun sé ákaflega mikilvægt að taka fullt tillit til mikilvægis leikskólans fyrir börn. En það er sem sagt að mínu mati ekki fullrætt eða fullmótað í raun hvers konar stofnun leikskóli á að vera og ég tel mjög brýnt að leiða þá umræðu til lykta hið fyrsta.