131. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2005.

Gjaldfrjáls leikskóli.

25. mál
[18:37]

Jónína Bjartmarz (F):

Herra forseti. Mig langar í upphafi máls míns að lýsa yfir stuðningi við það sem má kalla viljann á bak við þessa tillögu. Eins og ég hef skilið hv. flutningsmenn er viljinn fyrst og fremst sá að létta undir með barnafólki og þá fjárhagslega. En mig langar líka í því tilliti benda á að það má auðvitað gera á ýmsan annan hátt en með því að fella niður leikskólagjöldin.

Í ræðum annarra þingmanna hér hefur verið vikið að stefnumálum framsóknarmanna og svo sem líka bæði að ræðu hæstv. forsætisráðherra sem hann flutti um áramótin og hæstv. félagsmálaráðherra nýlega sem var svar við fyrirspurn. Mig langaði aðeins að koma inn á að það hefur verið stefnumál og var kosningastefnumál okkar framsóknarmanna að gera síðasta árið á leikskólanum gjaldfrjálst. Það hangir að hluta til saman við þá umræðu sem nú er í gangi um að stytta nám til stúdentsprófs og þá er spurningin hvert ætlum við að færa það nám sem áður hefur verið á framhaldsskólastiginu. Jú, við hljótum að ætla að færa eitthvað af því niður í grunnskólann. Þarf þá ekki aðeins að lengja grunnskólann? Mér finnst það vera sitthvort stefnumálið að gera síðasta árið í leikskólanum gjaldfrjálst og að ætla að gera leikskólann allan gjaldfrjálsan.

Það kemur fyrir að ég er mjög sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal. Ég get ekki tekið undir allt í ræðu hans áðan en ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þegar við setjum fram slík mál reynir auðvitað á ákveðin prinsipp sem við erum með gagnvart frelsi og sérstaklega gagnvart valfrelsi foreldra í landinu. Og á sama hátt og mér finnst leikskólinn eiga að vera hluti af mannréttindum barna, og þá er ég að tala um börn sem eru þriggja, fjögurra og fimm ára gömul en ekki endilega börn frá fæðingu og upp að tveggja, þriggja ára aldri. Það vill svo til að ýmsum börnum hentar ólíkt betur, og þá er ég að tala um börnin en ekki foreldra þeirra, að njóta annarra kosta þegar foreldrar sækja vinnu, t.d. hafa margir foreldrar með eitt eða fleiri börn farið þá leið að fá au pair eða að amman í fjölskyldunni tekur að sér að gæta barnanna eða jafnvel að foreldrar koma sér saman um að skipta vinnutíma sínum þannig, þar sem það er hægt, að þau geti annast börnin til skiptis.

Mér finnst ákveðin forræðishyggja í þessari tillögu. Það er enginn greinarmunur gerður í tillögunni á því hvaða aldur við erum að tala um. Ég man ekki betur en leikskólalögin geri ráð fyrir leikskólavist fyrir börn frá sex mánaða aldri. Erum við að tala um að fella niður gjaldið alveg niður að sex mánaða aldri? Ég vek þá í því samhengi athygli á því sem þó kemur fram í tillögunni, sem gladdi mig mikið, að þar segir einhvers staðar að þetta skuli gert í áföngum uns því takmarki er náð að allt leikskólastigið og eftir atvikum önnur sambærileg og viðurkennd dagvistun sé gjaldfrjáls. Það er því gert ráð fyrir að þetta sé ekki bara leikskóli heldur gildi þetta líka um eitthvað sambærilegt.

Eins og ég sagði í upphafi, herra forseti, tek ég undir viljann sem er þarna á bak við og styð þann yfirlýsta vilja, eins og margoft hefur komið fram í þeim málum sem við framsóknarmenn höfum sett á oddinn, að létta undir með barnafólki. Ég get ekki stutt tillöguna eins og hún er úr garði gerð en styð hana þó að því leyti að ég legg mikla áherslu á að þetta verði kannað og þá tekjusamskipti ríkis og sveitarfélaga varðandi síðasta árið í leikskólanum. Mér finnst full rök til þess og að því leyti styð ég að þetta verði gert í áföngum en verði þó fyrst og fremst takmarkað við þetta.

Þegar leikskólalögin voru sett upphaflega voru átök um það, og ég kynntist þeim af eigin raun á þeim tíma, hvort leikskólinn ætti að vera félagslegt úrræði og heyra undir félagsmálaráðuneytið eða hvort hann ætti að vera hluti af skólakerfinu og heyra undir menntamálaráðuneytið. Niðurstaðan af þeim miklu deilum sem urðu þar milli fagmanna, og ég man að hópar foreldra blönduðu sér í það líka, var að hann ætti að vera fyrsta skólastigið og hann var skilgreindur þannig og kveðið var á um rétt barna frá sex mánaða aldri til þessa úrræðis. Síðan hefur verið lyft grettistaki hjá flestum sveitarfélögum í uppbyggingu leikskóla til að mæta þörfinni.

Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kom inn á það áðan að það sem við þyrftum að huga sérstaklega að væri að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf og það markmið að við ættum að auka samvistir foreldra og barna. Af því tilefni get ég ekki látið hjá líða að geta þess sem ég heyrði nýlega greint frá og kann þó ekki að fara með í smáatriðum en það var könnun sem sýndi fram á hversu hættulega lengi sum börn væru orðið á leikskóla. Börn frá eins árs aldri í níu tíma vinnu, níu tíma daglega á leikskóla. Ætlum við að stuðla að því að fleiri börn séu allan þennan tíma á leikskóla? Hvar erum við að stuðla að auknum samvistum foreldra og barna í þessu kerfi?

Ég sé að tími minn styttist. Það er hægt að gera þetta á ýmsan hátt eins og ég sagði í upphafi og til að mynda ályktuðum við framsóknarmenn á síðasta flokksþingi um þá leið að huga að því að leikskólagjöld verði gerð frádráttarbær frá skattstofni foreldra. Meðal annars með þeirri leið léttum við fjárhagslega undir með foreldrum og viðurkennum þennan aukakostnað foreldra með börn á leikskóla sem er þá tekjujöfnunarúrræði og kemur til móts við þá.

Svo get ég tekið undir þau sjónarmið sem hér hafa líka komið fram að á þennan hátt getum við hugsanlega með því að hafa einhvern hluta leikskólans gjaldfrjálsan, t.d. þeirri leið sem ég nefndi og við framsóknarmenn ályktuðum um, stuðlað að því að íslenskir foreldrar eigi áfram mörg börn. Eftir því sem ég best veit eigum við næstflest börn allra þjóða í Evrópu, þó ekki nema 1,9. Það hefur verulega þýðingu fyrir framtíðina. Það hefur þýðingu m.a. gagnvart samsetningu þjóðarinnar, gagnvart mannaflaþörf, að við höldum í við fjölgun aldraðra með því að eiga fleiri börn á móti og fjölga vinnandi höndum.

Að ósekju var verið að gagnrýna áðan ræðu hæstv. félagsmálaráðherra þegar hann svaraði fyrirspurn um daginn. Hann sagði ekki annað en að varla væri hægt að tala um að flytja tekjustofna og fjármagn til sveitarfélaganna fyrr en fólk væri búið að taka afstöðu til þess hvort leikskólinn ætti að vera gjaldfrjáls. Það hlýtur að vera fyrsta spurningin og síðan hvernig við skiptum tekjum til að mæta kostnaðinum við það. Mér fannst svar hans, og ég náði mér í ræðu hans af þessu gefna tilefni áðan, vera mjög ljóst. Fyrst þurfum við að taka afstöðu til þessa og síðan könnum við hvernig við stöndum straum af kostnaðinum. Við erum jú að tala um samkvæmt því sem tillagan segir u.þ.b. 3 milljarða í þessu tilliti.