131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Þróun á lóðaverði.

470. mál
[12:57]

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svörin og einnig hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni.

Það sem kemur mér þægilega á óvart í svari hæstv. ráðherra er sú þróun sem hefur átt sér stað á Akureyri hvað fasteignaverð varðar og eru í raun allt aðrar tölur en umræðan almennt hefur endurspeglað á síðustu árum. Staðreyndin er greinilega sú að frá árinu 2000 hafa verðmæti fasteigna á Akureyri haldið hlutfallslega í fasteignir í Reykjavík. Slíkt endurspeglar styrk Akureyrar á síðustu árum, enda er það markmið ríkisstjórnarinnar að efla Eyjafjarðarsvæðið sem öflugt mótvægi við höfuðborgarsvæðið.

Það er nauðsynlegt að halda þar áfram að fjölga opinberum störfum til að styrkja þetta svæði áfram og þar verða stjórnvöld að taka sig á sem og á öðrum stöðum á landinu.

Hæstv. forseti. Ég tel að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu verði að leita leiða til þess að hafa áhrif á að lóðaverð haldi ekki áfram að hækka í framtíðinni eins og þróunin hefur verið á síðustu missirum. Það er skylda sveitarfélaganna að standa vörð um hagsmuni íbúa sinna og sú þróun sem hefur átt sér stað í hækkun á lóðaverði er ekki til þess fallin að bæta hag íbúa viðkomandi sveitarfélaga né þjóðarbúsins eins og hefur komið fram í þessari ágætu umræðu.