131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Menntunarmál geðsjúkra.

100. mál
[14:38]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Rétt fyrir jólahlé tók hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir það upp í umræðum um störf þingsins hvort ekki hefði fengist niðurstaða í viðræður Geðhjálpar, Fjölmenntar og menntamálaráðuneytisins um þjónustusamning um menntunarmál geðsjúkra. Þá hafði komið fram að frá því í ágúst höfðu staðið yfir viðræður milli menntamálaráðuneytis, Geðhjálpar og Fjölmenntar um að endurskoða þjónustusamning og hafði menntamálaráðuneytið tilkynnt bæði Fjölmennt og Geðhjálp að búið yrði að ganga frá því máli fyrir 1. desember á síðasta ári.

Þegar umræðan fór fram, 8. desember sl., hafði engin niðurstaða fengist og kom fram í máli menntamálaráðherra að viðræður stæðu yfir og málið hefði verið rætt í ríkisstjórn og hæstv. ráðherrar heilbrigðis-, félags- og menntamála hefðu tekið það upp sín á milli og vildu fyrir sitt leyti ljúka viðræðum um þjónustusamninginn þannig að menntunarmál geðsjúkra væru í mjög góðum farvegi.

Það þarf ekki að orðlengja um að það er enginn vafi á því að Fjölmennt opnar geðfötluðum og þeim sem eiga við slík veikindi að stríða aftur dyrnar út í samfélagið og eykur sjálfstraust þeirra og hæfi til að takast á nýjan leik og með öðrum hætti á við tilveruna. Einnig veitir það þeim fjölmörg tækifæri til að komast aftur á vinnumarkaðinn, enda hafa margir flosnað snemma frá námi án þess að ljúka annarri skólagöngu en grunnskóla vegna veikinda sinna sem títt er um þá sem eiga við erfið geðræn veikindi að stríða.

Þess vegna er að sjálfsögðu áríðandi, eins og fram kom á síðasta ári í umræðunum á þinginu, að ljúka þessum þjónustusamningi þannig að ekkert hik komi á menntunarmál geðsjúkra og þau séu í sem allra bestum farvegi, enda er um lágar fjárhæðir að ræða. Það virtist helst steyta á því að hér er um mál sem kemur inn á þrjú ráðuneyti að ræða þó það heyri undir menntamálaráðherra.

Ég lagði þessa fyrirspurn inn töluvert fyrir þann tíma sem umræðan stóð yfir, en út af því að málin voru í uppnámi voru þau tekin upp um störf þingsins, enda fyrirspurninni ekki svarað fyrir jólahlé. Þá var ekki komin niðurstaða og því spyr ég hæstv. menntamálaráðherra nú hvort málið sé leitt til lykta, hvort þjónustusamningur milli menntamálaráðuneytis, Geðhjálpar og Fjölmenntar liggi fyrir og hvort hæstv. ráðherrarnir þrír hafi tekið málið upp og náð niðurstöðu um það.

Það þarf ekki að ítreka, eins og fram kom í máli málshefjanda þá og annarra sem tóku þátt í umræðunum, hve viðkvæmur og flókinn málaflokkur þetta er og því brýnt að niðurstaða fáist og þjónustusamningur liggi fyrir.