131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Smíði nýs varðskips.

368. mál
[15:30]

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að leggja fyrirspurn fyrir hæstv. dómsmálaráðherra. Hún hljóðar svo:

Hvað líður undirbúningi stjórnvalda að smíði nýs varðskips fyrir Landhelgisgæsluna?

Ég held að allir Íslendingar geti sammælst um mikilvægi þess fyrir okkur, þessa eyþjóð sem hefur lífsviðurværi sitt af hafinu að verulegu leyti, að búa á hverjum tíma yfir öflugum varðskipum. Varðskipin hafa gegnt mjög mikilvægu hlutverki við strendur Íslands allt frá því að þjóðin fór að sækja út fyrir fjöruborðið, ef svo má segja, fyrst varðskip í eigu Dana og síðan varðskip í eigu okkar Íslendinga. Þessi skip hafa oft og tíðum skipt mjög miklu máli við ýmiss konar eftirlit í landhelginni, fiskveiðieftirlit einkum og sér í lagi en á síðari árum hafa einnig komið fram þarfir varðandi t.d. eftirlit í tengslum við hugsanlegt smygl á fíkniefnum og nú hugsanlegar varnir gegn hryðjuverkaógn. Síðasta haust fengum við hér upp að ströndum vægast sagt vafasama heimsókn rússnesks herskipaflota sem lýsti því yfir að hann væri kominn hingað upp að 12 mílunum til að stunda heræfingar, lá hér síðan vikum saman og enginn vissi í raun og veru hvað var á ferli.

Við höfum líka séð að við þurfum á varðskipum að halda, til að mynda þegar veður eru válynd við Ísland, svo sem þegar snjóflóðin féllu á Vestfjörðum fyrir 10 árum. Snjóflóð féllu á Vestfjörðum í vetur. Við höfðum fyrir örfáum dögum tilvik þar sem stórt flutningaskip lenti í vandræðum suðaustur af landinu og þá kom berlega í ljós að gömlu varðskipin okkar réðu varla við þetta verkefni.

Í Reykjavík varð stórbruni nálægt hafnarsvæðinu í vetur og þar skipti miklu máli að danskt varðskip var í höfn sem gat hjálpað okkur með dælubúnað til að dæla sjó á hið mikla bál sem logaði þar. Ég held að öllum sé því ljóst að við erum í raun og veru að leika okkur að eldinum, ef svo má segja, með því að sinna því ekki að efla skipakost Landhelgisgæslunnar. Það er að sanna sig ítrekað að við þurfum á almennilegum skipum að halda. Þó að þau skip sem við höfum í dag séu góðra gjalda verð, svo skammt sem þau ná liggur mér við að segja, og hafi skilað mjög góðu starfi í gegnum árin eru þau í dag orðin gjörsamlega úrelt.

Hér hefur í mörg ár verið umræða um að hefja smíði á nýju varðskipi en það er eins og málið hafi stoppað einhvers staðar í kerfinu. Það hefur ekkert frést af því lengi og þess vegna legg ég þessa fyrirspurn fyrir hæstv. dómsmálaráðherra í dag.