131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Smíði nýs varðskips.

368. mál
[15:33]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Frú forseti. Ég mótmæli því að núverandi varðskip okkar séu gjörsamlega úrelt eins og hv. fyrirspyrjandi komst að orði, síður en svo. Þau eru alls ekki úrelt, þessi varðskip hafa dugað okkur vel og geta dugað okkur vel áfram. Ég var síðast í hádeginu um borð í varðskipinu Tý sem var að koma frá Austfjörðum þar sem það tók þátt í björgunarstörfum, eins og við vitum, um síðustu helgi vegna bilunar hjá Dettifossi. Ég fór yfir það með skipherra Týs hvernig þeir stóðu að þeirri björgun. Ég er sannfærður um það eftir þann fund að það að taka þannig til orða að varðskipið Týr sé gjörsamlega úrelt er ranghermi og stenst ekki á nokkurn hátt.

Það breytir ekki hinu að unnið hefur verið að því, eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda, að smíða nýtt varðskip. Sérstök smíðanefnd var að störfum fram til ársins 2000 og síðan unnu Ríkiskaup að gerð útboðsgagna á grunni hugmynda nefndarinnar. Gert er ráð fyrir að það skip sem þar var til skoðunar mundi kosta 3–4 milljarða króna, eins og hugmyndirnar liggja fyrir núna.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það eigi að fara yfir alla þá kosti sem fyrir hendi eru þegar menn velta því fyrir sér hvort það sé skynsamlegt fyrir okkur að smíða svo stórt skip og meta það að nýju miðað við þróunina sem orðið hefur á þeim árum sem liðin eru frá því að menn lögðu af stað í þann leiðangur sem hefur skilað þeirri niðurstöðu að við þurfum 3–4 milljarða króna til að framkvæma tillögur sem liggja á borðinu.

Eins og fram hefur komið í fréttum undanfarið höfum við, nýr forstjóri Landhelgisgæslunnar og ég, átt fundi um þessi mál. Ég ræddi þau einnig um borð í varðskipinu Tý í dag og fór yfir hugmyndir um það hvaða leiðir væru bestar til þess að ráðast í endurnýjun á skipastóli Landhelgisgæslunnar. Það er augljóst að fleiri kostir eru til í stöðunni en sá að við látum sérsmíða skip fyrir okkur. Víða um lönd og víða um heim er verið að smíða skip sem fullnægja þeim kröfum sem við mundum gera og eigum að gera. Mér finnst alveg sjálfsagt að skoða þá kosti til hlítar og að við veltum því fyrir okkur hvort ekki sé unnt að nálgast þetta viðfangsefni á ódýrari hátt en hugmyndirnar um nýtt og miklu stærra skip en við höfum átt til þessa gera ráð fyrir.

Þetta verður skoðað og ég býst við því að við fáum haldfestu í málinu tiltölulega fljótt. Þá verða hugmyndir kynntar og þá verður líka gefið færi á því að starfsmenn Landhelgisgæslunnar fái tækifæri til að kynna sér þau skip sem til álita kunna að koma, leggja mat á málið og athuga til þrautar hvort ekki sé hægt að fara skemmri leið að því markmiði að endurnýja skipakost Landhelgisgæslunnar en þá að ráðast í smíði á þessu stóra og dýra skipi sem yrði sérsmíðað fyrir okkur.

Ég vil líka geta þess að ég tel að það eigi að eiga sér stað samvinna milli okkar og nágrannaþjóða okkar á þessu sviði. Það ber að vinna að því skipulega og gera samstarfssamninga við þjóðirnar í Norður-Atlantshafi um hvernig staðið er að eftirliti. Við sjáum t.d. að Norðmenn eru að gera sérstakar og nýjar ráðstafanir vegna siglinga risastórra olíuskipa frá svæðum í Barentshafi suður á milli Noregs og Íslands. Þar hafa menn gripið til ráðstafana sem eru til þess fallnar að gæta öryggis. Ég tel að við eigum að tengjast slíkum ráðstöfunum og að það eigi að efla samstarf milli þjóðanna við Norður-Atlantshaf í þessu skyni.

Ég hef lagt á ráðin með nýjum forstjóra Landhelgisgæslunnar og starfsmönnum hennar um að gengið verði til þess samstarfs og það einnig gert á formlegri hátt en nauðsynlegt er til að styrkja enn frekar öryggisgæslu og eftirlit hér á okkar slóðum.

Það að danskt skip var af tilviljun statt í Sundahöfn þegar eldur kviknaði í Hringrás var heppni. Vafalaust hefði annað skip, líka með búnaði, getað aðstoðað en það breytir engu um, var ekkert atriði og verður ekkert atriði þegar menn leggja mat á það hvort endurnýja þurfi varðskipakost okkar Íslendinga.