131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Smíði nýs varðskips.

368. mál
[15:38]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég er nærri viss um að skipstjórnarmönnum Landhelgisgæslunnar hefur lengi verið ljóst að núverandi varðskip mundi ekki ráða við stærstu skip sem hér sigla til landsins við vissar veðuraðstæður. Ég held að reynslan við Suðausturland undanfarna viku hafi sýnt okkur það vel og vandlega. Það var mikil mildi að vindur skyldi standa þar af landi en ekki á land.

Við erum líka að fá hér olíuskip upp að landinu og inn á Faxaflóa, og flutningar til álverksmiðja munu aukast hingað þannig að það er vissulega mikil þörf í framtíðinni fyrir stærra og öflugra skip. Ég held að við ættum að skoða það vandlega hvort ekki sé rétt að við byggjum það skip sem talað hefur verið um lengi á undanförnum árum.