131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[15:16]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á ýmsum lögum á orkusviði, sem er 396. mál þingsins.

Frumvarp þetta fylgir í kjölfar frumvarps hæstv. fjármálaráðherra sem var til 1. umr. á hinu háa Alþingi fyrr í dag.

Í frumvarpinu um skattskyldu orkufyrirtækja er gert ráð fyrir að orkufyrirtæki, þ.e. fyrirtæki sem stunda vinnslu, dreifingu, flutning, sölu og afhendingu á raforku og heitu vatni, verði skattskyld frá og með 1. janúar 2006. Tilgangur þess frumvarps sem ég mæli hér fyrir er að afnema öll sérákvæði af skattalegum toga á sviði raforkumála. Þær skattalegu ívilnanir sem nú gilda á orkusviði munu því heyra sögunni til. Slíkt er nauðsynlegt og eðlilegt þar sem nú hefur með setningu raforkulaga verið komið á samkeppni í raforkusölu og -vinnslu. Í frumvarpinu eru því felld brott sérákvæði um skattundanþágur sem finna má í orkulögum nr. 58/1967, lögum um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja, nr. 10/2001, lögum um stofnun hlutafélags um Norðurorku, nr. 159/2002, lögum um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða, nr. 40/2001, lögum um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, nr. 139/2001, lögum um Landsvirkjun, nr. 42/1983, og lögum um raforkuver, nr. 60/1981. Í frumvarpinu felst að undanþága framangreindra fyrirtækja frá greiðslu opinberra gjalda til ríkis og sveitarfélaga fellur niður, þar með talin greiðsla stimpilgjalds.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að rekja nánar efni frumvarpsins og vænti þess að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnaðarnefndar.