131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[18:42]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka það skýrt fram að rjúpnanefndin sem fékk það verkefni að semja frumvarpið fór mjög grannt ofan í allar hugsanlegar aðferðir til að stýra veiðunum. Það er alveg ljóst að þær tillögur sem hún skilaði til ráðherra eru uppistaðan í frumvarpinu. Ég tel að þær séu mjög skynsamlegar og vænlegar til árangurs til þess, sem er megintilgangurinn með frumvarpinu, að rjúpnaveiðar verði í framtíðinni sjálfbærar og það sé ekki gengið of nærri rjúpnastofninum. Ég tel að það hefði verið miklu harðari aðgerð að fara út í kvótabindingu á rjúpnaveiðunum og vil að það komi skýrt fram af minni hálfu, enda nefndi ég það í andsvari fyrr í dag.