131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[18:21]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það frumvarp sem við ræðum nú er um að nýta fjármuni sem safnast hafa upp í Þróunarsjóði sjávarútvegsins, en hann hafði það hlutverk að úrelda notuð fiskiskip og síðar á sínum starfstíma að úrelda fiskvinnslustöðvar, en var svo tekinn úr sambandi úr því hlutverki og tók við vörslu á Hagræðingarsjóði sjávarútvegsins til viðbótar. Ljóst var sennilega á árinu 1999 að Þróunarsjóðurinn mundi fá fjármuni vegna umsýslu sinnar sem menn höfðu kannski verið búnir að afskrifa og tengdist starfsemi Hagræðingarsjóðsins á sínum tíma. Ég held að hægt sé að finna því fjármagni sem er í Þróunarsjóðnum ýmis verkefni, þó að ég geri ekki lítið úr því að standa þurfi vel að hafrannsóknum.

Hæstv. forseti. Árið 1999 lagði sá sem hér stendur ásamt fjórum öðrum þingmönnum, einum úr hverjum stjórnmálaflokki, fram frumvarp um að hluti af þeim fjármunum sem yrðu til ráðstöfunar úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins þegar hann yrði gerður upp rynni til þess að varðveita söguminjar okkar að því er varðar gömul skip. Ég taldi eðlilegt að sá sjóður sem áður hafði séð um að úrelda flotann að stórum hluta fengi þá það hlutverk í lok starfstíma síns, svo framarlega sem í honum yrðu nokkrir fjármunir, að þaðan yrði tekið eitthvert fé til að gera átak í því að vernda fiskveiðiminjar okkar með því að viðhalda og gera upp gömul fiskiskip sem hefðu merka sögu.

Þetta var efni frumvarpsins á sínum tíma og það var rætt við 1. umr. og vísað til sjávarútvegsnefndar. Efnislega var það svo afgreitt sem þingsályktunartillaga frá sjávarútvegsnefnd. Sú þingsályktun var samþykkt í hv. Alþingi 9. maí árið 2000, fyrir þinglok árið 2000. Þar var beinlínis gert ráð fyrir að til varðveislu gamalla skipa skyldi koma fé m.a. úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins, eins og þar sagði í texta, til að gera átak í að varðveita sögulegar minjar úr skipaflota okkar. Ég held að full þörf sé á því, hæstv. forseti, að taka á í þeim efnum.

Það var sem sagt samhljóða samþykkt Alþingis á sínum tíma að gera þetta og sú tillaga var samþykkt samhljóða eins og ég sagði og vísað til ríkisstjórnarinnar. Forsætisráðherra hefur upplýst í svörum um þá tillögu að hann hefði falið menntamálaráðherra að vinna að framkvæmd hennar. Nýlega var hún rædd hér í þingsölum og farið stuttlega yfir.

Það eru nokkur verkefni sem ég tel að þurfi verulegt fé til að bjarga sögu okkar. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið en leyfi mér að nefna eitt mjög áberandi dæmi. Það er skipið Kútter Sigurfari á Akranesi. Þetta er eina skipið af þeirri tegund sem við Íslendingar eigum. Það er staðreynd að skrokkur skipsins hefur látið mjög á sjá þar sem hann er varðveittur á Byggðasafninu. Ég hygg að verulega fjármuni þurfi til þess að endurgera það skip svo vel fari. Og ég hefði talið það verðugt verkefni Þróunarsjóðs sjávarútvegsins, við slit hans, að teknir væru frá fjármunir til m.a. að takast á við það verkefni og ef til vill einhver önnur verkefni á landinu þar sem mætti leggja til einhverja fjármuni sem dreifðust um landið, t.d. á Vestfjörðum, Norðurlandi, Austfjörðum og í Vestmannaeyjum eða á Suðurlandi, í einhver tiltekin verkefni sem mönnum fyndist að þyrfti sérstaklega að gera átak í.

Ég nefni Sigurfara alveg sérstaklega vegna þess að hann verður ekki endurgerður nema með verulegum fjármunum. Ég veit ekki hvaða tölu ég ætti að nefna í því, mér kæmi ekkert á óvart þótt endurgerð hans hlypi á tugum milljóna. Ég tel að við eigum að takast á við það verkefni og þar sem Þróunarsjóður sjávarútvegsins hafði nú það verkefni á sínum tíma að eyða skipum, þá held ég að sé vel til fallið að hann fái líka það verkefni að hluta til að varðveita okkar elstu skip. Þess vegna hefði ég mælst til þess við hæstv. sjávarútvegsráðherra að hann léði því nú virkilega máls þegar þetta mál fer til sjávarútvegsnefndar að einhverjum hluta af þessum peningum, eigum við að segja kannski einum þriðja eða einum fjórða væri varið til þess að gera átak í því að bjarga menningarverðmætum eins og Kútter Sigurfara frá skemmdum, nánast eyðileggingu að mínu viti, þó svo að meginféð sem hér fellur til, sem yrði sennilega í kringum 400 milljónir, verði til þess að styrkja hafrannsóknir og efla þær, sem ég geri alls ekki lítið úr. Það er vissulega þörf á því.

Við megum ekki gleyma því, hæstv. forseti, að tillagan var samþykkt af þingheimi og í þingsályktuninni stendur alveg skýrt að þar sé m.a. horft til fjármuna úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins þannig að vilji Alþingis að þessu leyti var alveg skýr. Menn horfðu á hluta þeirra fjármuna til að takast á við þetta verkefni.

Þess vegna vek ég nú athygli á þessu, hæstv. forseti, að hér er verið að ræða sérstaka tillögu um að leggja Þróunarsjóðinn niður og að öllum hans fjármunum skuli varið í eina átt, en ég tel að Alþingi hafi lýst vilja sínum til að hluti af fénu færi í önnur verkefni og mælist til þess við hæstv. sjávarútvegsráðherra að menn leiti nú sátta í því að þannig nái vilji Alþingis fram að ganga sem til stóð og menn finni þar leið. Ég veit að hæstv. sjávarútvegsráðherra skoðar þau mál og sjávarútvegsnefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar mun fara yfir þessi sjónarmið. Þessi samþykkt Alþingis liggur hér fyrir og við höfum fengið svör ráðherranna um það að verið væri að reyna að vinna þessu framgang og efni ályktunarinnar var skýrt á sínum tíma.