131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Raforkuverð til garðyrkju.

415. mál
[13:37]

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Það er mjög mikilvægt að garðyrkjan sitji ekki uppi með þá hækkun sem á henni lendir núna við breytingu á raforkulögunum. Garðyrkjan er náttúrlega mjög mikilvægur þáttur í landbúnaði og á Suðurlandi er þetta eina stóriðjan sem við höfum. Rafmagnið er framleitt á Suðurlandi en okkar stóriðja, sem er garðyrkjan, nýtur ekki neins eða lítils góðs af því.

Mikil aukning hefur orðið á lýsingu í garðyrkju og með því hafa gæði framleiðslunnar aukist til muna. Eins og kom fram hjá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni er einn garðyrkjubóndi að greiða 3 milljónir á mánuði, 110 þús. á dag, í raforkukostnað, þannig að þetta er mjög dýrmætur kaupandi hjá Landsvirkjun.

Ég tel mjög mikilvægt að greinin sitji ekki uppi með þessa hækkun og til niðurgreiðslna verði að koma, hvort sem það verða 40, 50 eða 60 millj. kr. Ég vil geta þess af því landbúnaðarnefnd var til umræðu í þinginu í gær að næsti fundur mun m.a. verða tileinkaður garðyrkjunni.