131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Eignir Tækniháskóla Íslands.

228. mál
[14:01]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil sérstaklega mótmæla því að eitthvert pukur og leynd hafi verið í kringum þetta, síður en svo. Ég verð að segja að mér finnst þetta alltaf vera sama sagan. Hér koma þingmenn Samfylkingarinnar upp og segja: Það á að sameina skóla og fækka háskólum. Og svo þegar það er gert þá er það bara ekki rétta leiðin.

Menn tala um að ekki hafi verið talað t.d. við Viðskiptaháskólann á Bifröst. Ég bendi til að mynda hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni á að ræða það mál einfaldlega við rektor háskólans á Bifröst sem vill sérstaklega gæta að þeirri góðu sérstöðu sem sá frábæri háskóli hefur mótað sér og vill halda áfram að skapa. Það þýðir því ekkert að koma hingað upp í ræðupúlt þingsins og slá um sig með einhverjum athugasemdum um að það eigi að athuga þetta og athuga hitt þegar engin ástæða er fyrir slíku.

Ég vil undirstrika hvað varðar þessar tölur að ég get svo sem líka tekið undir að ég hnaut um þessar tiltölulega lágu tölur, en þetta eru upplýsingar frá Fjársýslu ríkisins. Sú leið sem hér er farin er byggð á fordæmum í gegnum verksamninga sem við höfum m.a. gert við Menntafélagið og förum alveg sömu leið hvað það varðar og nýtum náttúrlega þær lagaheimildir sem þar þarf til.

Ég vil sérstaklega undirstrika að þau tækifæri sem felast í þessum nýja háskóla eru fyrst og fremst fólgin í því að við erum að efla tækninám og verkfræðinám til framtíðar. Ég vil meina að við komum til með að fjölga tæknimenntuðu fólki duglega við þessa sameiningu.

Síðan er hitt, sem er afar jákvætt, að við erum líka að fara í það með þessari sameiningu að efla kennaramenntun, annars vegar á sviði raungreina og hins vegar íþróttamenntunar eða lýðheilsu. Þar er þessi nýi háskóli, sem er mjög til fyrirmyndar, að tengjast öðrum svæðum en eingöngu höfuðborgarsvæðinu, til að mynda Keflavíkursvæðinu eða Reykjanesbæ, sem er að mínu mati afskaplega jákvætt spor og verður vonandi til farsældar.