131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Vöxtur og viðgangur þorsks í Breiðafirði.

[14:15]

Guðjón Hjörleifsson (S):

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir þessa umræðu. Málefni fiskstofna í Breiðafirðinum hafa verið rædd í sjávarútvegsnefnd. Bæði höfum við fengið til okkar fulltrúa Hafrannsóknastofnunar, þá Hrafnkel Eiríksson og Björn Ævar Steinarsson, svo og Jón Kristjánsson fiskifræðing.

Hafrannsóknastofnun hefur áratuga reynslu af rannsóknum sem þessum og þegar ákvarðanir um lokun á svæðum eru teknar er það af niðurstöðum ítarlegra rannsókna. Þetta á við um öll veiðisvæði í kringum landið. Það liggur fyrir að niðurstöður rannsókna á þorski í sunnanverðum Breiðafirði sýna að almennt var fiskurinn smærri en gott þykir. Það var farið í meiri sýnatökur en gengur og gerist á svæðinu í kjölfar lokunarinnar til að fá sem áreiðanlegasta niðurstöðu um ástandið sem því miður sýndi sig vera slæmt.

67% af fiskinum á þessu svæði voru fjögurra ára eða yngri. 62% af fiskinum voru undir 55 sentímetrum. Meðalviðmiðunarmörk Hafrannsóknastofnunar vegna verndunar eru 25%.

Herra forseti. Hér eru mikil frávik og það væri ábyrgðarleysi að bregðast ekki við með þeim hætti sem nú er gert. Að jafnaði er vöxtur þorsks tveggja til þriggja ára yfir 100% á milli ára, en 80% á milli ára á þriggja til fjögurra ára þorski. Því er mikilvægt að vernda þennan stofn, byggja hann upp og láta hann njóta sem mestrar verndar.

Það er mikil arðsemi að mínu mati að bíða með að veiða þennan fisk og láta hann taka út vöxt. Það er ekki mikil arðsemi hjá þeim aðilum sem eru með aflamark að veiða þorskinn í því ástandi sem niðurstöður Hafrannsóknastofnunar sýna. Það er jafnframt mjög lélegt nýtingarhlutfall vinnslunnar sem skapar lægra markaðsverð á fiskinum. Hafrannsóknastofnun mun í samvinnu við heimamenn fara í rækilegar aldursathuganir á þessu svæði hverju sinni áður en tillaga um reglugerðarlokun af þessu tagi verður lögð fyrir sjávarútvegsráðuneytið.

Herra forseti. Ég skil áhyggjur heimamanna. Það er alltaf erfitt þegar veiðisvæði er lokað og hefur áhrif á alla þætti, bæði til sjós og lands, en við verðum að horfa til framtíðar með þetta svæði og láta lífríkið njóta vafans. Það verður styrkur fyrir þetta veiðisvæði til lengri tíma litið.