131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:40]

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta er farin að vera umræða í mörgum tilhlaupum. Fyrst var byrjað á henni strax eftir hádegið. Svo var gert svolítið hlé meðan menn ræddu vöxt og viðgang þorsks í Breiðafirði. Þegar þeirri umræðu var lokið voru menn búnir að safna nægum þrótti til að byrja upp á nýtt, ekki samt til að ræða efnisatriði frumvarpsins sem hér liggur fyrir og hefur legið fyrir í efnislegri afgreiðslu menntamálanefndar frá því í gær. Nei, nú til þess að reyna að ræða enn og aftur þá staðreynd að hæstv. menntamálaráðherra er fjarverandi, hefur fjarvistarleyfi. Í upphafi þingfundar var tilkynnt að í stað hennar settist á þing varaþingmaður. Það liggur fyrir að það er starfandi menntamálaráðherra sem er við umræðuna. Það liggur fyrir að málið hefur verið til umfjöllunar í menntamálanefnd í marga mánuði.

Menntamálanefndin er búin að afgreiða sitt mál. Menntamálanefndin hefur skilað af sér nefndaráliti. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa gert það, klofnað í nefndarálitum sínum, hafa tvær mismunandi skoðanir, eru greinilega hræddir við að fara í hina efnislegu umræðu og reyna að drepa málinu á dreif, tefja fyrir því að efnisleg umræða geti hafist og halda síðan áfram við að tosa þennan leista sinn og reyna að gera það tortryggilegt að hæstv. menntamálaráðherra sem er í opinberum erindagjörðum erlendis getur ekki verið á þessum fundi. Til staðar er starfandi menntamálaráðherra og það liggur fyrir að málið er á forræði menntamálanefndar og Alþingis.

Það er óskaplega sérkennilegt að þurfa að fara ofan í það að vera nánast að fara hér yfir stafrófið í þessu máli yfir hv. þingmönnum sem eru þaulreyndir, með margra ára og áratuga reynslu í þingstörfum. Það þarf að rifja hérna upp sjálfsagða hluti sem ég hélt að hver einasti þingmaður vissi, jafnvel þingmenn með litla reynslu.

Hér fór fram 1. umr. málsins fyrir áramótin. Þá auðvitað hlutu menn að kalla eftir svörum við þessum pólitísku spurningum sem var verið að varpa upp í þessari umræðu, pólitískum spurningum sem við munum auðvitað ræða áfram. Hafa menn kannski ekki tekið eftir því að til þess að gera mál að lögum þarf þrjár umræður? Það þarf 1. umr. þar sem menn geta farið yfir þessi mál, síðan liggja frekari upplýsingar fyrir almennt í 1. umr. þar sem menn hljóta auðvitað að spyrja þessara pólitísku spurninga sem hér var verið að tala um. Gerðu menn það virkilega ekki? Ég var að vísu ekki viðstaddur þá umræðu en getur það verið, virðulegi forseti, að það hafi gleymst að spyrja þessara pólitísku spurninga, að stjórnarandstaðan sé núna að vakna upp við það að hafa bara ekki munað eftir því að spyrja þeirra við 1. umr. og þurfi núna allt í einu að rifja það upp fyrir sér hverjar spurningarnar voru?

Nú liggur það auðvitað fyrir að málið er orðið fullrætt í nefndinni. Þrjú nefndarálit liggja fyrir. Er það ekki nægilegur grundvöllur til að hér geti farið fram efnisleg umræða? Er ekki nægilegt að hér séu fulltrúar úr menntamálanefnd til að tala um þessi mál? Er stjórnarandstaðan farin að vera haldin alvarlegri pólitískri minnimáttarkennd? (Gripið fram í.) (SJS: Hafa ekki ráðherrar …?)