131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:22]

Frsm. 1. minni hluta menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að svara hinu fyrra þá tel ég að það sé mjög góður kostur, að sameina háskóla og auka samvinnu skóla. En hvað varðar aðgengi að tækninámi til að tryggja jafnrétti til náms tel ég að skoða eigi hvort hefja ætti kennslu í tæknifræðum við aðra skóla, þ.e. skólum sem fyrir eru. Ég er að sjálfsögðu ekki að tala um að stofna eigi enn einn skólann heldur inni í þeim menntastofnunum sem eru málinu skyldar, svo sem við Iðnskólann í Reykjavík, aðra verkmenntaskóla eða Háskóla Íslands. Við viljum kanna kostina á því að hefja nám í tæknifræðum við aðra skóla sem fyrir eru. Alls ekki að fjölga skólunum, svo að það sé alveg skýrt. Þess vegna fór þetta algjörlega saman í áliti okkar.

11. gr. og 2. gr. sem hv. þingmaður vitnaði til, sem lúta að því að ef það myndist hagnaður við skólann þá renni hann í rekstur hans, eru ágætar svo langt sem þær ná. En það er engin eilífðartrygging. Það þarf tvo þriðju hluthafa til að breyta stofnsáttmála. Einn eigendanna, Verslunarráð Íslands, á 90% í hinum nýja skóla. Hann á svo að segja hinn nýja skóla. Því væru hæg heimatökin að breyta stofnsáttmálanum.

Eins vil ég benda á að þegar um er að ræða einkahlutafélag getur eignarhald á skólanum gjörbreyst án þess að nokkur hafi nokkuð um það að segja og markmiðssetningar frá því t.d. að skólinn er stofnsettur gjörbreyst. Slíkt rekstrarform hentar ákaflega vel utan um fyrirtæki á markaði sem rekin eru í hagnaðarskyni en ekki til að reka háskóla og til er annað betra rekstrarform, þ.e. sjálfseignarstofnunin.

Það er að sjálfsögðu hægt að reka skóla undir þessum formerkjum en það er betra og góð reynsla af því að reka háskóla sem sjálfseignarstofnanir.