131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Hámarkshraði á tvöfaldri Reykjanesbraut.

452. mál
[14:10]

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (Sf):

Herra forseti. Nú hillir undir að frekari framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar verði að veruleika eftir yfirlýsingu hæstv. samgönguráðherra á fjölmennum fundi í Stapa fyrir nokkrum dögum um að þessi syðri hluti verði boðinn út í einu lagi fljótlega. Nú er komin ákveðin reynsla á þann hluta brautarinnar sem þegar er búið að tvöfalda. Umferðarmenningin hefur breyst mikið til batnaðar frá því sem áður var þar sem mun minna er um glæfralega framúrakstra og lítil hætta á að umferð lendi á öðrum sem koma úr gagnstæðri átt, eins og stundum vildi verða með hrikalegum afleiðingum á einfaldri Reykjanesbraut.

Við sem keyrum Reykjanesbrautina á hverjum degi verðum áþreifanlega vör við þá breytingu sem þegar er orðin á umferð um brautina. Hún er afslappaðri á einfalda kaflanum frá Hafnarfirði að tvöföldun þar sem allir vita að þeir komast hindrunarlaust áfram þegar að tvöföldun kemur. Tvöföldunin virkar vel og flestir bílstjórar keyra hana eins og ráð er fyrir gert, hægari umferð heldur sig að mestu hægra megin en sú hraðari notar vinstri akreinina til framúraksturs. Í raun má segja að allir geti keyrt á sínum hraða. Þeir sem hægar fara gera það nú öruggara en áður og án þessa stressálags sem t.d. hraðari umferð setti á þá meðan Reykjanesbraut var einföld.

Hraðinn hefur þó aukist á brautinni frá því sem áður var. Við verðum að gæta að hraðanum og mér finnst þessi hraði núna orðinn kannski heldur mikill miðað við þann hámarkshraða sem á brautinni gildir. Ætli við getum ekki sagt að ferðahraðinn á brautinni í dag hjá þeim sem keyra vinstra megin sé í kringum 110 km á klukkustund.

Við þurfum líka að svara þeirri spurningu hvort rétt sé að á þessum vegi gildi sami hámarkshraði og á tiltölulega mjóum vegum vítt og breitt um landið þar sem aðstæður eru allar aðrar en á þessari nýju braut okkar milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja. Jafnframt má velta fyrir sér að hámarkshraði geti farið eftir aðstæðum og að hitanemar í veginum sem þegar eru fyrir hendi geti stjórnað æskilegum hámarkshraða á brautinni. Einnig er til umhugsunar hvort hraðinn á að vera sá sami á sumartíma og vetrartíma.

Ég tel mikilvægt að fá fram afstöðu hæstv. samgönguráðherra til þessa máls og eðlilegt að hér sé eftir henni spurt. Til að halda afstöðu minni til haga tel ég fullt svigrúm til þess að færa hámarkshraða á brautinni nær þeim hraða sem nú tíðkast á tvöfaldri braut en þá um leið verðum við að tryggja nægjanlegt eftirlit með því að hámörkin séu virt.

Til að fá fram afstöðu hæstv. samgönguráðherra lagði ég fram ásamt hv. þm. Merði Árnasyni þrjár spurningar sem eru eftirfarandi:

Telur ráðherra eðlilegt að hækka hámarkshraða ökutækja á tvöfaldri Reykjanesbraut milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar?

Var gert ráð fyrir hækkun hámarkshraða við hönnun brautarinnar?

Kemur til greina að mati ráðherra að hafa mismunandi hámarkshraða sumar og vetur?