131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Reiðhöll á Blönduósi.

[15:12]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég lýsti því yfir í sama þætti að ríkið hefði aðeins byggt eina reiðhöll. Það væri reiðhöllin uppi í Víðidal í Reykjavík. Hún hefði á sínum tíma haft mjög mikil áhrif á hestamennsku og æskulýðsstarf í borginni og fjölgað mjög hestamönnum í landinu, verið tímamóta… (Gripið fram í: … hamingjuna …) (Gripið fram í.) jók hamingjuna verulega, hv. þingmaður. Nú er þessi ágæta reiðhöll í eigu borgarinnar.

Ég hef í sjálfu sér aldrei gefið Blönduósingum nein loforð. Ég hef sagt þeim að þingið væri að fjalla um þessi mál. Nú hefur þingið afgreitt sína þingsályktun og ég skipað mína nefnd. Í þessari skýrslu eru vissulega fyrirheit sem í mínum huga geta alveg eins gagnast Blönduósingum. Ég minni á að það var efnaður og auðugur maður sem byggði höllina á sínum tíma á Blönduósi og gerði vel með sína peninga að mínu viti. Sauðkrækingar byggðu svo sjálfir sína höll með hlutafé og framlagi sveitarfélagsins. Vissulega hafa mörg sterkari sveitarfélög tekið þátt í þessu með hestamönnum.

Við skulum sjá hvað tíminn ber í skauti sér. Ég mun fara yfir stefnumörkun í framhaldi af þessari skýrslu sem nú liggur fyrir og ég vona að sé a.m.k. komin í hólf landbúnaðarnefndarmanna og kannski fjárlaganefndarmanna. Þetta eru verkefni sem ég tel mér skylt að vinna úr áfram fyrir hestamennskuna í landinu og við skulum sjá hvað út úr því kemur. Ég þarf að ná samstöðu í þinginu um málið, í ríkisstjórn, og hæstv. fjármálaráðherra þarf að vera við hliðina á mér svo að einhverjir séu nefndir til sögunnar.