131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Afdrif laxa í sjó.

58. mál
[16:11]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég hafði reyndar ekki tekið eftir því á málaskrá þingsins að þessi þingsályktunartillaga lægi fyrir og hv. 1. flutningsmaður hafði nú ekki heldur minnt vin sinn á að svo væri.

Hér tala menn eins og þeir séu að finna upp hjólið og stórir hlutir að gerast en það er auðvitað ekki alls kostar rétt. Hefði hv. þingmaður búið sig betur undir flutning þessa máls hefði hann komist að þeirri niðurstöðu að allt það sem hann er að leggja til hér er í gangi. Veiðimálastofnun hefur, bæði með stuðningi ríkisfjár og ekki síður úr Fiskræktarsjóði, verið í þessari vinnu í tvö ár og stærsta slepping af því tagi sem hér er lögð til fer nú fram á vordögum og þá verða notuð þessi rafeindamerki þannig að þetta er allt saman í gangi. Ég hygg, ef ég man rétt, að það sé úr Kiðafellsá sem sleppt verður miklu magni seiða eftir þessari leið til að kanna örlög þeirra í sjónum.

Ekki þar fyrir, ég tek undir með hv. þingmanni að þetta er hið besta þingmál og ekkert nema gott um það að segja og gott að finna þennan áhuga og stuðning. Ég tek undir allt sem segir í greinargerðinni um hve laxveiði í ám og reyndar nýting vatnanna skiptir miklu máli fyrir byggðirnar og er ekki síður mikið áhugamál þjóðarinnar að efla fiskgengdina. Það er auðvitað mjög mikilvægt og eins og kom fram í máli hv. þingmanns er mjög margt órannsakað í þessu, eins og hvernig endurheimt skilar sér sem hann fór yfir í sinni ágætu ræðu.

Ég vil líka skýra frá því hér, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að ég fór í nokkuð stranga samninga við utanríkisráðuneytið um að NASCO félli undir landbúnaðarráðuneytið og það hefur gerst. Á þeim vettvangi er nú meira áberandi í dag Guðmundur B. Helgason ráðuneytisstjóri, sem er formaður sendinefndar Íslands, en Orri Vigfússon án þess að ég ætli að gera lítið úr hans hlut. Við stóðum fyrir því á síðasta ári að NASCO hélt hér á landi sinn stóra fund sem var tímamótafundur og mjög merkilegur. Ég vil að það komi hér fram að við höfum tekið þetta mjög föstum tökum og teljum mjög mikilvægt að vinna með þessum þjóðum og gerum það nú af miklum krafti. Það er ráðuneytisstjóri landbúnaðarráðuneytisins sem stýrir sendinefnd Íslands á þessu sviði og hér var sem sé þessi mikli fundur haldinn.

Verið er að endurskoða lax- og silungsveiðilöggjöfina. Ég vona að ég komi með þingmál næsta haust sem lýtur að heildarendurskoðun löggjafarinnar. Þá er mikið mál í mínum huga að styrkja Fiskræktarsjóðinn þannig að hann geti eflt rannsóknir sínar. Ég tek undir það sem fram kemur í greinargerðinni, og hef staðið í töluverðum slagsmálum út af, að raforkuframleiðslan greiði ákveðið gjald til náttúrunnar og í slíka starfsemi, eins og er í nálægum löndum, hvort sem er í Svíþjóð eða Noregi, og greiði miklu hærra gjald en einhver 3 prómill af framleiðslu sem hér hefur verið gert. Mér finnst það vera mjög göfugt að um leið og menn hafa stigið þessi skref til virkjunar falli ákveðinn peningur til náttúrunnar í staðinn, ekki síst til að efla vísindin og þróun á vatnasvæðum.

Mér finnst mjög mikilvægt að þegar landbúnaðarnefnd fer yfir þetta ágæta mál verði farið yfir það með Veiðimálastofnun í hvaða stórræðum menn standa í þessum efnum og hvaða áætlanir menn eru með, því allt er þetta komið í gang og er mjög mikilvægt eins og fram kemur í þingsályktuninni að halda því áfram og gera með enn meiri krafti héðan í frá en hingað til því þetta er gríðarlega dýrmæt auðlind. Ég er t.d. að skoða núna hvernig við getum eflt veiðar ekki síst í vötnunum á silungsveiði, þessa almenningstómstundaiðju, að Íslendingar eigi aðgang að vötnum og ám því ég hygg að tugir þúsunda manna stundi stangveiði í landinu. Ég er ekki viss hvort ég muni þetta rétt, en gott ef það eru ekki á milli 40 og 50 þús. Íslendingar sem koma að stangveiði í landinu með einhverjum hætti. Áhuginn er því mikill og okkur í þinginu ber að styðja við þá viðleitni um leið og þetta er mikið byggðamál og tekjumál á landsbyggðinni, bæði þjónustan við veiðimennina og svo eru það auðvitað hlunnindajarðir sem búa yfir því að eiga hluta af laxveiðiám, það eru einar ríkustu og sterkustu jarðirnar.

Hæstv. forseti. Ég vildi skýra frá því við umræðuna að vinnan öll sem lögð er til er komin í fullan gang og ber að fylgja henni fast eftir og til þess þarf auðvitað meira fjármagn en menn hafa á lausu í dag.