131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Afdrif laxa í sjó.

58. mál
[16:18]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að hæstv. landbúnaðarráðherra ætti að fara varlega í að mæta í ræðustól Alþingis og guma af framlagi stjórnvalda hvað varðar lax- og silungsveiði hér á landi því ný skýrsla sem Hagfræðistofnun háskólans gerði í fyrra sýnir að lax- og silungsveiði gefur af sér hátt í 10 milljarða íslenskra króna í tekjur árlega. Framlag ríkisstjórnarinnar, stjórnarflokkanna, til Veiðimálastofnunar, sem er helsta rannsóknarstofnun hvað fiskstofnana varðar, er hins vegar aðeins 55 millj. á ári. Það eru því kannski í kringum 0,5% af heildarveltu greinarinnar sem stjórnvöld af myndar- og höfðingsskap sínum sjá sér fært að veita í rannsóknir á þessum mjög svo mikilvægu fiskstofnum sem gefa svo sannarlega mjög mikið af sér fyrir byggðir landsins og ferðaþjónustuna, eins og hæstv. ráðherra kom réttilega inn á í ræðu sinni áðan.

Ég vil nota tækifærið fyrst hæstv. landbúnaðarráðherra er í salnum og spyrja hann að því hvað líði nýju frumvarpi um Fiskræktarsjóð sem hann nefndi áðan. Frumvarpið kom í þingið í fyrra, fór í landbúnaðarnefnd og síðan ekki söguna meir. Það mætti mjög harðri andstöðu frá Landsvirkjun og var nánast kveðið í kútinn á eftirminnilegum fundi þar sem forstjóri Landsvirkjunar mætti á fund landbúnaðarnefndar, setti ofan í við nefndina og stoppaði frumvarpið af ef svo má segja.

Einnig langar mig til spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra: Hvað tefur endurskoðun laga um lax- og silungsveiði? Endurskoðunin hefur staðið yfir í mörg herrans ár. Hæstv. ráðherra lýsti því yfir fyrir rúmu ári að verið væri að endurskoða þau lög. Nú boðar hann að því starfi verði vonandi lokið næsta haust. Þá eru liðin tvö ár frá því hæstv. ráðherra nefndi frumvarpið hér og sagði að það væri í endurskoðun. Hvað tefur orminn langa?