131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Verndaráætlun fyrir svæði sem eru ósýkt af sauðfjárriðu.

61. mál
[18:46]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Í upphafi máls vil ég taka undir nánast allt í málflutningi hv. 1. flutningsmanns, hv. þm. Jóhanns Ársælssonar. Ég tel að hann hafi hreyft afar þörfu máli.

Mesta hættan er auðvitað fólgin í því að menn gleymi að standa vaktina þegar fram í sækir. Ég tel að réttast væri að gera eins og hv. þingmaður leggur til, að viðhalda lokun á þeim svæðum sem hafa verið sýkingarlaus en fé verið flutt frá inn á svæði sem hafa verið sýkt til að byggja þar upp stofna á nýjan leik. Ég tel nauðsynlegt að við gleymum ekki að vernda þau svæði og halda þeim hreinum. Það má ekki slaka of mikið á með því að fella niður girðingarhólf eða hólf sem hafa verið notað á undanförnum árum. Okkur hefur tekist að halda Snæfellsnesinu nokkuð hreinu og auk þess Vestfjörðunum, norðausturhorninu og Suðursveitinni, eða svæðinu sunnan Vatnajökuls. Ég tel nauðsynlegt að við gleymum okkur ekki þótt einhverjum svæðum hafi tekist að haldast riðulaus í 20 ár. Við megum ekki fella niður varnargirðingarnar og hætta á að veikin komi upp á þeim svæðum.

Mesta hættan liggur þarna, að þó að menn telji 20 ár nægja til að líta svo á að tekist hafi að koma í veg fyrir riðu þá hefur það sýnt sig að riðan tekur sig upp aftur og aftur á ákveðnum svæðum landsins og það getur auðvitað verið mjög varasamt að slaka á við að koma í veg fyrir smit.

Ég tek undir það sem hv. þingmaður hefur sagt varðandi flutningana af svæðum sem eru sýkt. Við getum tekið svæði eins og Skagafjörð en þangað er fluttur fjöldi fjár þar sem mikil slátrun fer fram þar. Flutningabílar fara vestur um alla firði, út á Strandir, vestur í Dali, vestur á Snæfellsnes jafnvel og flytja til Skagafjarðar. Ég held að það þurfi að standa ákaflega vel að þeim flutningum og sótthreinsun flutningstækjanna. Menn þurfa að huga sérstaklega að því að þegar flutningstæki eru send til að ná í fé inn á þessi svæði þá fari þau helst ekki inn á land sveitabæjanna heldur sé féð rekið á tiltekinn stað þannig að flutningabílarnir fari ekki heim á hlað.

Við þurfum að standa vaktina í þessum málum og getum ekki leyft okkur að taka mikla áhættu með svæði sem hafa verið riðulaus í 15–20 ár, að þá megi sleppa varnargirðingunum og hætta á að sýkt fé fari milli hólfa og smiti út frá sér. Þá missum við niður árangur af langri baráttu í þessum málum sem ég vonast þó til að muni smátt og smátt færa okkur nær því að landið allt verði ósýkt. Fjölmörg svæði hafa verið riðulaus í langan tíma eins og hv. 1. flutningsmaður fór yfir.

Ég vil hins vegar eindregið lýsa þeirri skoðun minni að ég tek undir þær leiðbeiningar sem hann hefur komið á framfæri með máli sínu. Ég held að þær eigi fullkomlega við rök að styðjast og menn þurfi að gæta sérstaklega að umferð um hin ósýktu svæði og fara varlega í að fella niður girðingar á milli þeirra. Við erum búin að hafa mikið fyrir því að halda þessum svæðum ósýktum og getum ekki leyft okkur neitt kæruleysi í þeim efnum að viðhalda ekki girðingum til öryggis. Þannig búum við að því að halda þessum svæðum ósýktum. Við vitum að riðan getur komið upp eftir langan tíma þar sem ekkert fé hefur verið. Við verðum að láta þau svæði sem ósýkt hafa verið njóta vafans í þessu efni. Það er í raun og veru eina trygging okkar fyrir því að eiga ósýkta stofna.