131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Sala eignarhluta Landsbanka Íslands í Vátryggingafélagi Íslands.

509. mál
[14:18]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson beinir til mín fyrirspurn um það hvert hafi verið söluverð eignarhluta Landsbanka Íslands í Vátryggingafélags Íslands sem seldur var í aðdraganda að sölu bankans árið 2002.

Þessu er til að svara að samkvæmt tilkynningum frá Landsbanka Íslands og Vátryggingafélagi Íslands sem birtar voru í fréttakerfi Kauphallarinnar seldi Landsbankinn 27% hlut í Vátryggingafélagi Íslands þann 28. ágúst 2002 fyrir tæplega 3,8 milljarða kr. Þann 3. janúar 2003 tilkynnti Landsbanki Íslands að bankinn hygðist nýta sölurétt samkvæmt samningi við Ker hf., eignarhaldsfélagið Andvöku, eignarhaldsfélag Samvinnutrygginga og Samvinnulífeyrissjóðinn og selja rúmlega 21% hlut sinn í VÍS fyrir rúmlega 3 milljarða kr. Að þeim viðskiptum loknum átti Landsbankinn 1,64% hlut í VÍS. Landsbankinn seldi því samtals 48,32% hlut í VÍS fyrir um 6,8 milljarða kr. í aðdraganda að sölu bankans árið 2002.