131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Húsnæðismál Landspítala -- háskólasjúkrahúss.

523. mál
[14:46]

Fyrirspyrjandi (Lára Margrét Ragnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er ljóst að allt er afskaplega óljóst um framtíðarskipulag Landspítala – háskólasjúkrahúss og að engar meginákvarðanir hafa verið teknar í sjálfu sér nema þá innan heilbrigðisráðuneytis og innan Landspítala – háskólasjúkrahúss af þeim stjórnendum sem þar ráða, þ.e. stjórn spítalans. Það er heilbrigðisráðuneytið sem ræður eftir því sem reynsla mín er.

Ég hjó eftir því að ráðherra taldi að þarna væru mörg mismunandi sjónarmið á ferðinni. Hann sagði að þegar menn tækjust á um svona lagað væri hætta á að bygging gæti tafist. Það er einmitt þess vegna sem ég tel að svo hljótt hafi verið um fólk sem hefur tjáð aðrar og mismunandi skoðanir eða skoðanir um það að svona spítali væri betur kominn í Fossvogi en við Landspítala, einmitt af þeim ástæðum að þetta fólk vill ekki eða þorir ekki að tefja málið. Þess vegna höfum við ekki séð, eins og ég hef ítrekað við önnur tækifæri, orð frá þessum hópi þegar skrifað hefur verið í blöð og rætt í fjölmiðlum um heilbrigðismál. Ég bið ráðherra hér með að svara mér eða til þingsins aftur þeim spurningum sem ég lagði fram um óbeina tengingu við 35 ára gömul gögn frá Weeks-skýrslunni sem tengjast þessari staðsetningu við Hringbraut og um að hagkvæmni náist ekki á forsendum einhverra lauslegra talna heldur á forsendum sem taka má mark á.