131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Samþætting jafnréttissjónarmiða í íslensku friðargæslunni.

[13:02]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Í vikunni kom út skýrsla um jafnréttis- og kynjasjónarmið í stefnu og starfsemi íslensku friðargæslunnar en hún er unnin af Birnu Þórarinsdóttur, framkvæmdastýru UNIFEM á Íslandi, fyrir Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands og UNIFEM, m.a. unnin með tilstyrk frá utanríkisráðuneytinu. Í þessari skýrslu kemur fram að konum hafi fækkað á viðbragðslista íslensku friðargæslunnar á undanförnum fjórum árum og að konur hafi færri tækifæri en áður til að starfa fyrir friðargæsluna.

Svo er komið að fyrri hluta árs 2004 voru konur einungis þrjár af 22 friðargæsluliðum, þ.e. 14% af heildinni. Þetta eru alvarleg tíðindi og í hróplegu ósamræmi við þá stefnu sem upphaflega var mörkuð í þessum efnum. Þetta stangast einnig á við ályktun 1325 sem samþykkt var í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í október árið 2000 en hún kveður á um aukinn hlut kvenna í ákvarðanatöku og þátttöku við friðarumleitanir og uppbyggingu eftir stríð. Ályktun 1325 varpar ljósi á sérstakar hættur sem blasa við konum og stúlkum á stríðstímum og í kjölfar stríðs og kveður á um að sérstakt tillit skuli tekið til stöðu og réttinda kvenna á slíkum tímum. Til að tryggja að þessum atriðum sé framfylgt er farið fram á að aðildarríki og aðalritari Sameinuðu þjóðanna sjái til þess að starfsfólk í friðargæslu- og uppbyggingarstarfi fái sérstaka fræðslu í, eins og það er orðað í ályktuninni, verndun, réttindum og sérþörfum kvenna. Að auki er kveðið á um að starfsfólk skuli fá fræðslu um mikilvægi þess að konur séu þátttakendur í öllum aðgerðum sem snúa að friðargæslu og friðaruppbyggingu.

Í skýrslu Birnu Þórarinsdóttur segir að í upphafi hafi stefna og starfsemi íslensku friðargæslunnar tekið visst mið af jafnréttis- og kynjasjónarmiðum en síðustu ár hafi verkefnaval verið konum í óhag og engin sýnileg skref stigin til að auka þátttöku þeirra. Þessar staðreyndir stangast á við markmið ríkisstjórnarinnar og einnig við markmið utanríkisráðuneytisins sem hefur heitið samþættingu jafnréttis- og kynjasjónarmiða í alþjóðastarfi. Í ljósi þessa spyr ég hvers vegna verkefnaval íslensku friðargæslunnar á síðustu missirum hafi verið með þeim hætti að hafi leitt til hlutfallslegrar fækkunar kvenna, bæði á viðbragðslistanum og meðal útsendra friðargæsluliða. Getur verið að það stafi af því að stefnumótun íslensku friðargæslunnar hefur einvörðungu verið í höndum karla?

Í öllu falli er ljóst að ekki hefur verið litið nægilega til áhrifa verkefnanna á jafnrétti kynjanna í viðkomandi landi. Hvers vegna hefur megináherslan verið á uppbyggingu flugvalla af okkar hálfu? Hvernig tengist það verndun, réttindum og sérþörfum kvenna? Loks má gagnrýna utanríkisráðuneytið fyrir að sinna ekki jafnréttisfræðslu handa friðargæsluliðum eða þeim sem annast stefnumótun friðargæslunnar.

Til að samþætta jafnréttissjónarmið starfi og stefnu íslensku friðargæslunnar þarf í fyrsta lagi að auka hlutdeild kvenna í stefnumótuninni því að það er vitað að því jafnara sem hlutfall kynjanna er við stefnumótun þeim mun líklegra er að ákvarðanir sem teknar eru endurspegli hagsmuni beggja kynja. Varðandi verkefnavalið þarf að huga að sérþekkingu þeirra sem skráðir eru á viðbragðslistann og tryggja að þátttaka kvenna í friðargæslu aukist á komandi árum í stað þess að minnka eins og gerst hefur upp á síðkastið.

Þá þarf að huga miklu betur að áhrifum verkefnanna á jafnrétti kynjanna í viðkomandi landi og tryggja að þau hafi jákvæð áhrif á stöðu og lífskjör karla og kvenna.

Síðast en ekki síst þarf að veita friðargæsluliðum og ábyrgðarmönnum íslensku friðargæslunnar fræðslu í jafnréttismálum og samþættingu jafnréttissjónarmiða því að fræðsla er forsenda þess að samþætting beri árangur og að henni sé viðhaldið. Öll þau atriði sem ég nú hef nefnt til úrbóta eru í samræmi við markmið utanríkisráðuneytisins um jafnrétti kynjanna. Þau eru líka í samræmi við ályktun 1325 sem ríkisstjórnin hefur veitt sérstakan stuðning.

Því legg ég eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. utanríkisráðherra:

Hvernig hyggjast stjórnvöld rétta hlut kvenna í starfi íslensku friðargæslunnar og á hvern hátt framfylgja einstökum þáttum ályktunar 1325? Er þar átt við aðkomu kvenna að stefnumörkun, verkefnaval og áhrif verkefnanna á jafnrétti kynjanna í viðkomandi landi, einnig jafnréttisfræðslu handa friðargæsluliðum og þeim sem annast stefnumótun hennar. Það er mat þeirrar sem hér stendur að spyrna þurfi kröftuglega gegn þeirri þróun að konur hafi nú færri tækifæri en áður til að starfa á vegum íslensku friðargæslunnar og að nauðsynlegt sé að auka tækifæri þeirra í þessum efnum. Ég skora á hæstv. utanríkisráðherra að lesa þessa skorinorðu skýrslu vandlega, horfa svo á heimildarmyndina Íslensku sveitina en þar mun hann komast að hinu sanna um hernaðaryfirbragð íslensku friðargæslunnar og það hversu langt starfið hefur vikið frá upphaflegri braut og ályktun 1325. Þegar hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra hefur séð þetta í réttu ljósi (Forseti hringir.) skora ég á hann að heita því að hverfa frá hervæðingu íslensku friðargæslunnar.