131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:29]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er margt líkt, þó það nú væri, og gæði þjónustu og annað þess háttar á að sjálfsögðu við í ýmsum þjónustufyrirtækjum og skólar eru að sjálfsögðu þjónustustofnanir. En það er þó margt líka sem er gjörólíkt.

Herra forseti. Ég vil ekki skorast undan því að svara spurningunni vegna þess að það er augljóst mál að hv. þingmaður er farinn að upplifa það eins og mjög margir að það styttist óðum í að stjórnarskipti verði, og ekkert skrýtið þó að örlítið fari um hv. þingmann þegar hann áttar sig á því að ekki er mjög langur tími fram undan í þeim efnum.

Ef vel gengur, sagði hv. þingmaður, hvort við mundum samt sem áður fara í viðræður við þá. Það er algjörlega skýrt að þetta er stefna okkar og við munum að sjálfsögðu þar af leiðandi fara í viðræður við aðila um það hvort einhver vandkvæði séu á því að þessu sé kippt í liðinn. (KÓ: Þetta getur …) Mjög margir hv. þingmenn úr meiri hluta í menntamálanefnd hafa einmitt sagt að það væri eiginlega enginn munur á þessu þannig að ég get ekki ímyndað mér að það væru nein vandræði þegar að þessu kemur, ég get ekki séð að það séu nein vandræði.

Ég skil heldur ekki þessa upplifun hv. þingmanna (Forseti hringir.) að það sé einhver hótun að vilja að ræða við menn um svona hluti. Það er engin hótun.