131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[19:28]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst hv. þm. Sigurjón Þórðarson maður að meiri og ég biðst velvirðingar á því að hafa talið hann inn í þennan hóp annarra stjórnarandstöðuþingmanna. Það er hárrétt sem kom fram hjá honum að hann óskaði þessum nýja háskóla velfarnaðar í störfum sínum.

Það er í rauninni alveg rétt, maður á ekki að vera að láta einhverja fýlu sem oft og tíðum svífur hér yfir vötnum eyðileggja þessi miklu gleðitíðindi sem bráðum leiða til þess að hér verður öflugur háskóli sem mun efla tækni- og verkfræðinám og kennaramenntun í landinu. Þetta er því alveg ágætisábending hjá hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni.

Varðandi hins vegar akademískt frelsi er alveg ljóst að fram til þessa hefur enginn efast um að það hafi ríkt innan Háskólans í Reykjavík. Ég hef enga trú á að þar á verði nokkur breyting. Og enn og aftur erum við komin að því trausti sem við verðum að bera til skólastjórnenda hins nýja háskóla. Síðan verðum við líka að hafa í huga að þessi háskóli býr við það að hann verður fá nemendur til sín. Það er það sem samkeppnin hefur leitt af sér, allir háskólarnir eiga að berjast um nemendur. Þá eru miklir hagsmunir fyrir þá að þeir geti sýnt fram á að þeir hlúi að hinu akademíska frelsi og sinni kennslu sinni af miklum gæðum og miklum metnaði.