131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Sala Símans og grunnnetið.

[10:34]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason talaði um mikilvægi Símans, fjarskiptanna og grunnnetsins og ég get tekið undir það. Hann spyr hvort komi til greina að stöðva undirbúning við sölu Símans. Svarið við því er nei. Það kemur ekki til greina. Fyrir liggur heimild Alþingis frá árinu 2001 til að selja fyrirtækið í einu lagi og sú ákvörðun grundvallaðist á áliti og niðurstöðu fjölda sérfræðinga að hvorki væri skynsamlegt né þörf á að aðskilja grunnnetið frá öðrum þjónustuþáttum fyrirtækisins. Þróunin á fjarskiptamarkaði frá þeim tíma hefur einungis styrkt stjórnvöld í þeirri trú að rétt sé að selja fyrirtækið í heilu lagi. Samkeppnin innan lands hefur aukist síðan þá og fyrirtækin eru orðin sterkari og hafa sýnt bæði vilja og getu til að byggja upp sín eigin grunnnet. Það liggur reyndar fyrir að lagaumhverfið á EES-svæðinu gerir ráð fyrir að það sé samkeppni í rekstri grunnneta í fjarskiptageiranum og eins og við vitum starfrækja önnur fyrirtæki, eins og t.d. Orkuveita Reykjavíkur, grunnnet og reka þau.

Síðan hafa komið fram óljósar hugmyndir um samrekstur samkeppnisaðila á grunnneti sem ég tel að séu óraunhæfar. Það hefur í reynd verið reynt. Póst- og fjarskiptastofnun reyndi að koma á samstarfi milli aðila á fjarskiptamarkaðnum um uppbyggingu eins dreifikerfis fyrir stafrænt sjónvarp og það mistókst og ég hef ekki trú á að það muni takast.

Það liggur alveg ljóst fyrir að hið lagalega umhverfi á Íslandi, sem er að evrópskri fyrirmynd, tryggir samkeppnisaðilum Símans greiðan aðgang að grunnnetinu og þess vegna hefur ekkert breyst í þessu sambandi.