131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:43]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Gunnar Birgisson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Rétt til að svara því sem er inntakið í spurningu hv. þingmanns, að við ættum að hafa helst bara einn skóla á Íslandi til að við gætum keppt við skóla erlendis, er ég algjörlega á móti því. Við erum ekki fjölmenn þjóð og varast ber að hafa of marga háskóla, það er alveg laukrétt, en samt tel ég að fleiri en einn skóli þurfi að vera með hverja grein. Það þarf að vera möguleiki á að taka sömu greinina í tveimur skólum. Samanburður og samjöfnuður af öllu þessu er af hinu góða. Það eru ónefndar greinar sem er farið að kenna í öðrum háskólum, bæði í Reykjavík og vestur á landi í samkeppni við Háskóla Íslands, og ég held að það hafi orðið báðum til góðs. Ég held að náminu hafi fleygt fram og þá verður einhver framþróun. Í þessu ríkisapparati, ef þetta á að vera bara einn ríkisskóli, erum við að tala um ákveðna stöðnun.

Ég er líka sammála hv. þingmanni í því að auðvitað verðum við að standa á verði gagnvart samkeppni við útlönd. Eins og ég sagði í mínum fyrri ræðum er þetta allt annað en það var. Heimurinn er orðinn langtum minni en hann var fyrir 10 árum eða 20 árum, eða 30 árum þegar við hv. þingmenn vorum við nám í Edinborg sem þá var talið mikið ferðalag. Nú tekur klukkutíma og 45 mínútur að fljúga yfir og ekki nema dagpartur farinn.

Ég held að við séum að tala um gjörólík mál hér. Bæði fjarnám og aðrir möguleikar breyta þessu gjörsamlega. Ef við værum að tala hér eftir 10 ár værum við með allt aðra stöðu, með möguleika nemenda hér til að stunda nám við háskóla í Þýskalandi, Japan eða Bandaríkjunum, og enn eftir 20 ár getur verið að uppi verði enn önnur staða.