131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Eignarhald á Hótel Sögu og fleiri fyrirtækjum.

[15:23]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Í gær flutti hæstv. landbúnaðarráðherra ávarp fyrir búnaðarþingi að Hótel Sögu. Nú vill svo til að Hótel Saga er reist fyrir fé bænda á seinni hluta síðustu aldar, upp úr 1960, og því vil ég spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra sem vill hag bænda sem bestan hvort hann hyggist breyta eignarhaldinu á Hótel Sögu og því sem því tengist — það eru fleiri hótel sem tengjast þessu — þannig að bændur eignist hlutabréf í þessu fyrirtæki og geti selt þau. Það veitir ekki af hjá sumum bændum, sérstaklega sauðfjárbændum.

Þá vildi ég líka spyrja hann hvort hann hygðist ekki gera það sama við aðrar stórar eignir sem bændur eiga sameiginlega en ekki hver um sig, t.d. Mjólkursamsöluna, Mjólkurbú Flóamanna og fleiri eignir sem eru með milljarða í sjóðum í eiginfé, og bændur hafa kostað, komið upp og reist en eiga ekki beint eignarhald að. Er ekki eðlilegt að breyta þessu í hlutafélag sem bændur eigi beint?

Tilefni þessarar fyrirspurnar er að bóndi hringdi í mig fyrir nokkrum árum — hann þurfti að lifa á 90 þús. kalli á mánuði, sagðist ekki kaupa pitsu — hann sagðist eiga í Hótel Sögu og honum veitti ekkert af því að drýgja þessar tekjur sem eru 90 þús. kall á mánuði með því að nota eignarhlut sinn í Hótel Sögu.