131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Eignarhald á Hótel Sögu og fleiri fyrirtækjum.

[15:25]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Stendur ekki upp hér í dag varðmaður eignarréttarins á Íslandi og ætlast til þess að landbúnaðarráðherra fálmi inn í fyrirtæki sem hann hefur ekkert með að gera. Hið glæsilega hótel, Hótel Saga, var byggt fyrir frumkvæði Búnaðarfélags Íslands. Þá var Þorsteinn Sigurðsson bændahöfðingi uppi á Vatnsleysu og þeir byggðu þetta myndarlega hótel og eignuðust síðan Hótel Ísland. Þetta er alfarið hlutafélag í eigu Bændasamtaka Íslands í dag. Landbúnaðarráðherra má ekki einu sinni hafa skoðun á því, af því að hann virðir svo þennan eignarrétt, hvað þeir eigi að gera við hann en ég hygg að þeir reki þessi fyrirtæki sín nú á ferðamannatímum fyrir talsvert mikinn arð sem nýtist þá bændum í heild sinni. Þeir verða að taka ákvörðun um það, bændur Íslands, í gegnum sinn félagsskap hvað þeir gera við þessar miklu eignir í borginni. Þær eru þeirra eign, þeirra ákvörðunarréttur og hann virði ég.

Svo gæti ég auðvitað haft alls konar skoðanir á því hvað ætti að gera við peninginn, en er ekki best að ég sleppi því í dag? (Gripið fram í.)