131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Sala Símans og einkavæðingarnefnd.

[13:52]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Ég hef ekkert nema gott um það að segja að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar veiti framkvæmdarvaldinu eins mikið aðhald og þeir geta, enda tel ég að þeir séu að því nú og þeir hafa óskað eftir umræðum um málið skipti eftir skipti.

Hins vegar verð ég að segja að mér finnst mjög undarlegt hvað stjórnarandstaðan leggur mikla áherslu á að festa milljarðatugi í samkeppnisrekstri, stjórnarandstaða sem er ávallt að tala um hvað það séu mörg verkefni sem við höfum ekki leyst í samfélaginu en virðist ekki sjá neina leið til að leysa þau verkefni nema hækka skatta á landsmenn. Þetta undrar mig.

Hv. þm. Kristján L. Möller vitnaði í skýrslu sem ég vissi ekki að væri til fyrr en hann upplýsti það fyrir nokkrum dögum. Skýrslan er frá árinu 2000, algjörlega úrelt og gerð áður en fjarskiptalögunum var breytt og áður en ákvörðun var tekin um sölu Símans og samþykkt á Alþingi. Af hverju vitnar hv. þingmaður ekki í forstjóra Póst- og fjarskiptastofnunar sem kom á fund efnahags- og viðskiptanefndar í morgun, helsta sérfræðings í þessum málum? Mér er sagt að hann hafi verið með sérfræðiálit sem hentaði ekki stjórnarandstöðunni (Gripið fram í: Þetta er rangt.) og þess vegna dregur stjórnarandstaðan upp fimm ára gamalt plagg sem er algjörlega úrelt og hefur ekkert annað til að fjalla um.