131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[17:04]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst þetta andsvar hv. þingmanns enda í takt við málflutning hans, það endaði á orðinu ja, og svo bara kom ekkert. Ég veit ekkert almennilega hver spurningin er.

Ég get sagt hv. þingmanni það að þrátt fyrir að hann hafi ofurtrú á samkeppnislögum og Samkeppnisstofnun hef ég verið að benda á það sjónarmið að menn eigi ekki að trúa um of á slíka lagasetningu. Ég hef bent mönnum á það að það var ekki eggið sem kom á undan hænunni, heldur öfugt.

Ég geri ráð fyrir að hv. þingmanni sé kunnugt um að það var samkeppni bæði á íslenskum markaði og á mörkuðum um allan heim áður en menn komu Samkeppnisstofnun á fót og settu samkeppnislög. Oftrú þessara manna á lagasetningu og valdboði er algjör, þar á meðal hv. þingmanns. Menn verða að hafa þetta í huga þegar þeir fjalla um samkeppnislög.

Það getur vel verið að margt í þessum samkeppnislögum sé ágætt. Ég er ekkert að mæla fyrir því að þeim sé ekki framfylgt en í guðanna bænum, þessari hreintrúarstefnu sem hv. þingmaður fer hér með hafna ég alveg.