131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

591. mál
[20:04]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta var í raun og veru upplýsandi og ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir. Löggildingarstofa sér um ákveðin málefni sem telja má vera á málefnasviði neytenda. Það gerir Tryggingastofnun líka. Eigum við ekki bara að færa þetta í Tryggingastofnun? Ef einhver vandræði verða með mannskap þar og sú stofnun væri eitthvað á flæðiskeri stödd væri kannski upplagt að sameina það þar.

Það sem var kannski mest upplýsandi var tvennt. Það var að þetta er ekki til staðar annars staðar, þetta er ekki svona neins staðar annars staðar og það er fínt að ráðherrann hæstv. segi það vegna þess að hún hafði gefið annað í skyn hérna áðan þegar hún sagði að þetta væri eins og í Danmörku. (Viðskrh.: Nei, ég sagði það ekki.) Orðrétt tilvitnun: Eins og í Danmörku. Ef hún hefur ekki orðað þetta svo þá er það kannski meiningarlega rétt, ráðherrann sagði að þetta væri danski umboðsmaðurinn holdi klæddur, kominn í íslenskan þjóðbúning. Það mál hefur leyst í umræðunni, þetta er ekki eins og í Danmörku og þetta er ekki svona neins staðar annars staðar, þetta embætti er ekki til annars staðar.

Það var líka upplýsandi að þetta heyrir að vísu ekki undir löggildingarforstjórann, nei, það er gott. En bíðum nú við, talsmaðurinn hefur sem sé þetta formlega sjálfstæði sem væntanlega felst m.a. í því að löggildingarforstjórinn getur ekki tékkað á stimpilklukkunni hans og ræður ekki hvenær hann mætir í vinnuna. Það er væntanlega hið formlega sjálfstæði.

En sjálfstæðið að öðru leyti, sjálfstæðið í mannafla, verkstjórn, sjálfstæðið í fjárhag og sjálfstæðið um hvað þessi maður getur tekið sér fyrir hendur í raun og veru og ekki bara einn heldur með einhverju starfsliði, það er ekkert, því að það er komið undir löggildingarforstjóranum, forseti góður.

Það þriðja sem var merkilegt í þessu er að það upplýsist hér með að þessi talsmaður hefur ekki það hlutverk að leysa úr deilumálum heldur að leiðbeina um það hvar sú lausn sé fengin, þannig að starfsmaðurinn þarf ekki að hafa háskólapróf. Hann getur verið 13 ára gamall í sumarvinnu og haft fyrir framan sig lista um það hvernig skipulagið er, skipurit um hver leysir hvaða vandamál og svarað því. (Forseti hringir.) Eða enn þá betur, hann gæti bara verið símsvari, þessi ágæti talsmaður neytenda. Hér er símsvarinn: Talsmaður neytenda.