131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Ráðning aðstoðarmanna þingmanna.

466. mál
[12:25]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki neinu við það að bæta sem ég áður sagði. Aðalatriðið er, með fullri virðingu fyrir tillögum nefndarinnar sem hér er vitnað til, að þessi skipan mála byggir á því samkomulagi sem varð milli forustumanna stjórnmálaflokkanna á sínum tíma um að tiltekinni fjárhæð yrði varið til þessara mála og á því hefur verið byggt síðan. Því er nauðsynlegt að aðilar komi sér saman um einhverja aðra skipan mála.

Mér finnst hins vegar eðlilegt að stjórnmálaflokkunum sé trúað fyrir því hvernig þetta verður framkvæmt. Við hljótum að hafa þá tiltrú á stjórnmálaflokkunum í landinu að þeir séu fullfærir um það.

Það er að sjálfsögðu rétt sem hér hefur komið fram að miklu máli skiptir um hvaða fjárhæð er hér að tefla. Hún hefur hækkað. En ég heyri á ummælum hv. þingmanna að þeim finnst hún vera allt of lág. Það er eins og margt annað í okkar ágætu fjárlögum að þar mætti margt vera hærra. Þetta er að sjálfsögðu atriði sem menn þurfa að fara betur yfir og ræða sín í milli og það eru einmitt slík atriði sem forustumenn stjórnmálaflokkanna verða að ræða um og athuga hvort hægt sé að ná einhverju nýju samkomulagi um tilhögun þessara mála. Það er mjög mikilvægt að um þetta ríki góð samstaða þannig að engar deilur verði milli manna. Þetta mál er þess eðlis að það hlýtur að byggja á samkomulagi milli allra stjórnmálaflokkanna.