131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Háskóli á Ísafirði.

522. mál
[15:49]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég held að það dyljist engum að Vestfirðingar vilja að stofnaður verði háskóli á Vestfjörðum sem staðsettur yrði á Ísafirði. Það er vilji íbúanna. Hvort ráðherra hafi tekist að fá ákveðinn hluta þeirra sem hún vinnur með til að fallast á að lendingin yrði þekkingarsetur, um það skal ég ekki dæma en það er alla vega kostur númer tvö í mínum huga. Ég átta mig ekki á því hvers vegna er ekki stefnt að stofnun háskóla og rektor ráðinn til að leiða stofnun skólans inn í framtíðina og þróun hans. Ég hefði talið að það væri vænsti kosturinn. Það er örugglega sá kostur sem heimamenn sækjast eftir í þessu máli.