131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Áfengislög.

74. mál
[15:16]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir mjög góða umræðu um málið. Ég tek undir með hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að hér er ekki á ferðinni annað en þverpólitískt mál. Fólk úr öllum stjórnmálaflokkum í þjóðfélaginu er fylgjandi þeim viðhorfum sem hér hefur verið talað fyrir. Ég vísa þar fyrst og fremst í ræður fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar því það vekur athygli mína að sú skipting er hér í umræðunni að annars vegar eru það við úr þeim ranni sem hvetjum til hófsemi og hins vegar eru það hægri mennirnir og frjálshyggjumennirnir sem vilja greiða götu markaðssjónarmiða á þessu sviði sem öðrum — og þar á ég ekki við hæstv. heilbrigðisráðherra, Jón Kristjánsson, ég veit að við erum samstiga í málinu.

Ég vek athygli á því og ítreka það sem fram hefur komið við umræðuna að hér er ekki verið að innleiða bann við áfengisauglýsingum, það er við lýði, það er í landslögum eins og fram hefur komið. Hins vegar er verið að koma í veg fyrir að menn fari á bak við lögin með því að nánast svindla á þeim reglum sem löggjafinn hefur sett. Við viljum taka fyrir þetta með löggjöfinni.

Það er rangt sem fram kom hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni að á meðal flutningsmanna séu menn sem vilja leyfa áfengissölu í almennum matvörubúðum, svo er ekki. Við sem stöndum að frumvarpinu erum fylgjandi því fyrirkomulagi sem við búum við núna, við teljum að það dragi úr eða hafi hemil á áfengisneyslu, alla vega sé hætt við því að grimm auglýsingamennska á þessu sviði eða aukið aðgengi frá því sem nú er væri til þess fallið að auka áfengisneyslu.

Ég held að öll sjónarmið sem þörf er að vekja athygli á við 1. umr. hafi komið fram. Ég tek þeirri ábendingu fagnandi sem fram kom m.a. hjá hv. þm. Merði Árnasyni, að tilefni hefði verið til að efna til víðtækari aðildar að frumvarpinu en ég ætla að vona að þess gerist ekki þörf á nýju þingi, ég ætla að vona að hv. allsherjarnefnd afgreiði málið aftur til þingsins þannig að við getum tekið afstöðu til þess. Ég held að fáir vilji hafa lögin eins óljós og þau eru þannig að menn komist upp með að brjóta landslög eins og gert hefur verið einvörðungu vegna þess að lögin eru ekki skýr.