131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

137. mál
[17:08]

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það má vera að hv. þingmaður þekki rannsóknir kjararannsóknarnefndar betur en ég en ég trúi því ekki að hv. þingmaður telji að kjararannsóknir á íslenskum launamarkaði standi og falli með því hvort skattskrár liggi frammi til sýnis í tvær vikur á hentugum stað í hverju sveitarfélagi. Það getur ekki verið. Við vitum að sambærilegar rannsóknir fara fram hjá stéttarfélögum og öðrum aðilum sem rannsaka kynbundinn launamun og þær rannsóknir hafa ekkert með þá framlagningu að gera.

Varðandi flutningsmenn frumvarpsins og kynbundinn launamun þá er það þannig að hv. þingmaður hóf ræðu sína á því að upplýsa okkur um þá skoðun sína að með frumvarpinu hygðust flutningsmenn fela ójöfnuðinn í þjóðfélaginu, þar á meðal var væntanlega hinn kynbundni launamunur. Ekki satt, hv. þingmaður? Þess vegna er eðlilegt að maður dragi þá ályktun að hann telji að flutningsmenn frumvarpsins séu hlynntir kynbundnum launamun fyrst þeir vilja fela hann. En svo er ekki, það er á hreinu.

Varðandi það hvort ákvæði 98. gr. skattalaga, um birtingu skattskrár, brjóti gegn stjórnarskránni þá held ég að ég og hv. þingmaður getum verið sammála um að hún brjóti a.m.k. gegn öllum þeim prinsippum sem þau ákvæði sem ég hef farið yfir byggja á varðandi friðhelgi einkalífsins. Hins vegar hygg ég að það hafi aldrei reynt á túlkun þessa ákvæðis, a.m.k. ekki fyrir Hæstarétti enn sem komið er. Því liggur ekki fyrir endanlegt mat og túlkun á inntaki greinarinnar, hygg ég. (Forseti hringir.)