131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Lokafjárlög 2002.

440. mál
[15:02]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það væri mjög ánægjulegt ef menn gætu séð í fyrsta lagi á einni síðu fjárlögin eins og þau eru lögð fram og síðan breytingar sem Alþingi gerir á þeim fjárlögum, sem sagt frumvarp til fjárlaga, breytinguna sem Alþingi gerir á fjárlögunum og fjárlögin sjálf þar í kjölfarið, síðan fjáraukalög og millifærslur og lokafjárlög og að þetta stemmi og menn geti séð á einu blaði hvernig til hefur tekist við gerð fjárlagafrumvarpsins sem er jú alltaf áætlun. Menn þurfa að hafa það alltaf í huga. Menn eru að spá. Þetta er spádómur. Auðvitað er það metnaður sérhvers fjármálaráðherra og ég veit að hæstv. fjármálaráðherra alveg sérstaklega hefur mikinn metnað í því að reyna að spá rétt. Mér finnst að menn ættu að geta séð á einu blaði hvernig til hefur tekist þegar lokafjárlög eru afgreidd.