131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Símenntunarmiðstöðvar.

573. mál
[12:21]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Herra forseti. Staða símenntunarmiðstöðvanna er á margan hátt fráleit, eins og fram kemur í málflutningi hv. þingmanna í dag, málshefjanda og þess sem mælti á undan mér. Það vantar allt samræmi í stöðu þeirra og þær búa ekki við neitt jafnræði. Það versta er að þar sem aukningin hefur verið hvað mest í fjarnámi í háskólagreinunum innan símenntunarmiðstöðvanna er það að verða þeim baggi af því að þær fá ekki greitt fyrir háskólanámið. Nú er svo komið að sumar símenntunarmiðstöðvarnar hafa boðað að verði ekki breyting þar á muni þær hætta að bjóða upp á fjarnám á háskólastigi og yrði það mikið áfall fyrir starfsemi og uppgang stöðvanna. Það er hægt að fullyrða að hlutverk þeirra, uppgangur og umfang hefur verið að mörgu leyti byltingarkennt fyrir byggðirnar. Hlutverk þeirra er það stórt og þær koma með svo mikilvægan þátt inn í byggðirnar. Það verður að búa þannig um að þær njóti jafnræðis og búi við skýran ramma.