131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Staða íslensks skipasmíðaiðnaðar.

[13:51]

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða almennt um stöðu íslensks skipasmíðaiðnaðar enda er yfirskrift þessarar umræðu á þann veg. Því miður hefur það borið við í umræðunni að nær allir þingmenn sem hér hafa tekið til máls hafa ákveðið að ræða sérstaklega um útboð Ríkiskaupa fyrir hönd Landhelgisgæslunnar varðandi varðskipin Tý og Ægi. Það mál snertir ekki hæstv. iðnaðarráðherra. (Gripið fram í: Jú, jú.) Ríkiskaup heyra ekki undir hæstv. iðnaðarráðherra. (Gripið fram í.) Málefni Landhelgisgæslunnar heyra ekki sérstaklega undir hæstv. iðnaðarráðherra. (Gripið fram í: Skipasmíða...) Hví beina hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar og fleiri þá máli sínu til hæstv. iðnaðarráðherra í þessari umræðu? Slíkt er firra og stjórnskipulega rangt, enda hef ég óskað eftir umræðum utan dagskrár um þetta málefni við hæstv. fjármálaráðherra sem er yfirmaður Ríkiskaupa (Gripið fram í.) sem fór með þetta mál.

Hæstv. forseti. Almennt um skipasmíðaiðnaðinn í þessu landi. Ég fagna yfirlýsingum hæstv. iðnaðarráðherra um að nú stendur fyrir dyrum að bæta starfsumhverfi iðnaðarins. Við hljótum að fagna því. Ég hélt að þessi umræða snerist um það málefni. Það er nauðsynlegt að bæta umhverfi skipasmíðaiðnaðarins hér á landi og ég fagna því að byggja eigi á vinnu nefndar sem hagsmunaaðilar skipuðu og skilaði af sér í febrúar síðastliðnum og styð hæstv. ráðherra í því.

Ég vil segja að lokum, hæstv. forseti, að það er einkennilegt í ljósi stefnu Vinstri grænna í iðnaðarmálum að hv. þingmenn þess flokks hafi sérstakar áhyggjur af iðnaðinum í landinu. (ÞBack: Ha?) Það stjórnmálaafl hefur sett sig algjörlega upp á móti framkvæmdum sem snúa að iðnaðaruppbyggingu á Austurlandi og hvert er það fyrirtæki sem hefur notið hvað mest góðs af því? Ég sé að hv. þm. Þuríður Backman (Forseti hringir.) hlær hér. Það er Slippstöðin á Akureyri sem er með tugi manna (Forseti hringir.) í vinnu á Akureyri við uppbyggingu iðnaðar (Forseti hringir.) á Austurlandi. Það er sárgrætilegt, hæstv. forseti, (Forseti hringir.) að hv. þingmaður skuli hlæja að þessu.

(Forseti (BÁ): Forseti verður að áminna hv. þingmenn um að virða þann ræðutíma sem ákveðinn er í þessari umræðu.)